Umferðarlög

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 19:20:29 (6486)

2001-04-05 19:20:29# 126. lþ. 107.21 fundur 672. mál: #A umferðarlög# (farsímar, fullnaðarskírteini) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[19:20]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um breyting á umferðarlögum. Ég tel þetta vera hið besta mál og mér finnst að þegar vinnuhópar fara vel ofan í málin að þá komi oft út úr þeim mjög góðar tillögur.

1. gr. frv. um að notkun farsíma og annars fjarskiptabúnaðar í umferðinni sé óheimil ber náttúrlega að fagna alveg sérstaklega. Fjölmargar tillögur í þinginu hafa verið fluttar um það mál og mér þykir þetta afar skynsamlegt.

Ég er ein af þeim sem vildu gjarnan sjá að 18 ára aldursmarkið sé greinilega þegar barn hættir að vera barn og verður fullorðinn einstaklingur og getur gift sig og gert í rauninni allt sem sig lystir sem fullorðin manneskja. Þá væri hægt að nýta þetta eina ár milli 17 og 18 í æfingaakstur þannig að viðkomandi gæti svo sem byrjað að aka að miklu leyti. En við eigum eftir að ræða það nánar í nefndinni.

Ég var afar sátt við það eins og dómsmrh. talaði um að gera úttekt á árangrinum eftir ákveðinn tíma þegar þetta er búið að vera í gildi og ég held að það sé líka mjög mikilvægt þegar við erum að prófa okkur áfram með nýja hluti. Ég er alveg klár á því að með meiri reynslu, meira aðhaldi með þeim sem er að byrja að læra á bíl þá verða þeir auðvitað betri bílstjórar þegar fram í sækir.