Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 19:49:19 (6497)

2001-04-05 19:49:19# 126. lþ. 107.24 fundur 669. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bifreiðar til ökukennslu o.fl.) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[19:49]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir litlu frv. til laga um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. með síðari breytingum.

Með frv. þessu er lagt til að vörugjald af bifreiðum til ökukennslu verði lækkað í 10% og 13% eftir sprengirými aflvélar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Frv. gerir ráð fyrir því að bifreiðar til ökukennslu geti notið sömu lækkunar og leigubifreiðar og bílaleigubifreiðar, en vörugjöld á þessum bifreiðum hafa þegar verið lækkuð í 10 og 13% eftir sprengirými aflvélar, nú síðast bílaleigubifreiðarnar með lögum nr. 8/2000.

Þetta frv. á sér nokkurn aðdraganda. Meðal annars kemur til skjalanna úrskurður samkeppnisráðs nr. 10/1999, en einnig álit frá umboðsmanni Alþingis um þetta efni. Niðurstaðan af umfjöllun um þetta mál í ráðuneytinu er sú að eðlilegt sé að um þessi mál gildi samræmdar reglur, bæði að því er varðar leigubíla, bílaleigubíla og bifreiðar til ökukennslu. Því er þetta frv. lagt fram, herra forseti. Þetta er sem sagt samræmingarmál.

Við gerum ráð fyrir því að kostnaður ríkissjóðs af þessu verði óverulegur. Ekki er ljóst hversu margir ökukennarar munu uppfylla þau skilyrði sem um er að ræða í þessu frv.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.