Umferðaröryggisáætlun 2001--2012

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:32:59 (6633)

2001-04-23 15:32:59# 126. lþ. 109.1 fundur 469#B umferðaröryggisáætlun 2001--2012# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:32]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. hreyfir hér vissulega mikilvægu máli. Búið er að ræða mjög mikið um umferðarmálin enda full þörf á því. Það þarf sannarlega að taka á í þessum málaflokki og ég held að allir hv. þm. séu sammála því.

Við vitum að það þarf að fá ákveðið fjármagn til þessara mála og að því er að sjálfsögðu unnið. Margt er búið að gera sem rétt er að vekja athygli á. Farið var í mjög mikið átak sl. sumar þar sem einkum var reynt að ná til ungra ökumanna og reynt að hafa áhrif á hegðun þeirra í umferðinni. Því miður hefur það samt orðið þannig að allt of mörg alvarleg slys verða. Ég skipaði sérstakan starfshóp undir forustu formanns allshn. Sá hópur skilaði margvíslegum tillögum sem verið er að vinna í. Nú þegar hefur komið fram hjá þingflokkum frv. til breytinga á umferðarlögum þar sem tekið er t.d. á málum sem snerta farsíma, að sérstakur búnaður verði tengdur þeim símum til að trufla ekki ökumenn í akstri. Einnig er verið að taka sérstaklega á í sambandi við unga ökumenn, að þeir þurfi að sanna sig mun betur áður en þeir fái fullnaðarskírteini og að þeir þurfi að ganga undir sérstakt akstursmat. Það er því verið að gera mjög margt.

Einnig má nefna að lögreglan hefur verið með sérstakt átak til að auka eftirlit á stærstu stofnbrautum t.d. út frá höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbrautin hefur verið sérstaklega nefnd í því sambandi. Þar hefur náðst mjög góður árangur. Aukin samvinna hefur einnig verið á milli lögreglunnar og Vegagerðarinnar og það verða væntanleg gerðir árangursstjórnarsamningur milli þessara stofnana bráðlega þannig að verið er að vinna að þessum málum.