Umræða í sjávarútvegsnefnd um brottkast

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 13:44:58 (6690)

2001-04-24 13:44:58# 126. lþ. 110.91 fundur 478#B umræða í sjávarútvegsnefnd um brottkast# (aths. um störf þingsins), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[13:44]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Bara örfá orð vegna ummæla hv. formanns sjútvn. um stöðu mála í nefndum.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að mál hafa verið send til umsagnar. Það er ekki það sem málið snýst um, heldur það að mál sitji föst í nefndum þó svo að þau hafi verið send til umsagnar og það tel ég miður. Það gildir ekki bara um sjútvn., það gildir um nefndir þingsins yfir höfuð að það er erfiðleikum bundið að fá afgreiðslu á þingmannamálum.

Í sjútvn. eru sum mál þess eðlis að með nánari umfjöllun og afgreiðslu gætu þau e.t.v. verið liður í því að leysa miklar deilur sem uppi eru í samfélaginu varðandi kjör sjómanna. Nefni ég þar t.d. tillögu um aðskilnað veiða og vinnslu o.s.frv. Ég tel því að það sé mjög miður að við skulum ekki ganga í þessi verk sem liggja fyrir þinginu og vil árétta það enn og aftur að ég tel einnig miður að það skuli læðast að manni sá grunur að legið sé á upplýsingum sem þegar eru til eins og skýrsla um brottkast. Auðvitað þarf þingið að fá hana eins fljótt og kostur er. Mér skilst að hún komi fram á allra næstu dögum en ef skýrslan er til, þá ætti hún auðvitað nú þegar að vera í okkar höndum.

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins árétta þetta og tel að a.m.k. í sjútvn. séu mál sem eru þess eðlis að þau gætu verið liður í því að leysa sjómannadeilu og um þau hefur ekki verið fjallað.