Fjarskipti

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 14:32:00 (6706)

2001-04-24 14:32:00# 126. lþ. 110.17 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv. 29/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er fjallað um breytingar á fjarskiptalögum en eins og fram kom í máli hv. framsögumanns, formanns samgn., Árna Johnsens, voru gerðar breytingar á þessum lögum undir lok ársins 1999.

Í 11. kafla þessara laga er fjallað um leynd og vernd fjarskipta. Það er gert í tveimur greinum. Í síðari greininni, hinni 44., er tekið á vernd fjarskiptasendinga sérstaklega á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

,,Enginn sem starfar við fjarskiptavirki, net eða þjónustu má skjóta undan skeytum, gögnum, myndum eða öðrum merkjum sem afhent eru til fjarskiptaflutnings eða liðsinna öðrum við þess konar athæfi.

Sá sem fyrir tilviljun, mistök eða án sérstakrar heimildar tekur við símskeytum, myndum eða öðrum fjarskiptamerkjum, táknum eða hlustar á símtöl má ekki skrá neitt slíkt hjá sér eða notfæra sér það á nokkurn hátt. Jafnframt ber honum að tilkynna sendanda að upplýsingar hafi ranglega borist sér. Skylt er að gæta fyllsta trúnaðar í slíkum tilfellum.

Sá aðili að símtali sem vill hljóðrita símtalið skal í upphafi þess tilkynna viðmælanda sínum um fyrirætlun sína.``

Eins og réttilega kom fram í máli hv. þm. Árna Johnsens var gerð athugasemd við þetta síðasta ákvæði lagagreinarinnar, ekki síst af hálfu Blaðamannafélags Íslands. Í ljósi þeirrar gagnrýni, m.a. frá Blaðamannafélaginu, var ákveðið að taka þetta mál upp að nýju og erum við nú að fjalla um þær breytingar.

Reyndar komu fram önnur frv. með brtt. á sínum tíma, bæði frá þremur þingmönnum Samfylkingarinnar, hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, Kristjáni L. Möller og Þórunni Sveinbjarnardóttur, og hins vegar frá þeim sem hér stendur. Ég lagði til í frv. til laga að síðasta ákvæði 44. gr. laganna yrði hreinlega fellt niður, þar sem kveðið er á um að aðili að símtali sem vilji hljóðrita símtalið skuli í upphafi þess tilkynna viðmælanda sínum um fyrirætlun sína. Ég er á því að mönnum beri að sýna slíka kurteisi en tel hins vegar margt mæla gegn því að slíkt sé fest í lög.

Stjórnarmeirihlutinn og meiri hluti samgn. taldi að gera þyrfti breytingar á viðkomandi lagagrein og eru brtt. sem nefndin leggur til eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Aðili þarf þó ekki að tilkynna sérstaklega um upptöku samtals þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina.

Þrátt fyrir 3. mgr. er opinberum stofnunum heimilt að hljóðrita samtöl er þeim berast þegar slík hljóðritun er eðlilegur þáttur í starfsemi stjórnvalds og nauðsynleg vegna þjóðar- og almannaöryggis. Um fyrirkomulag hljóðritunar og kynningu hennar fyrir almenningi og starfsmönnum stofnunar skal fara eftir skilyrðum sem Persónuvernd kann að setja.

Úrvinnsla hljóðritana samkvæmt grein þessari skal vera í samræmi við lagaákvæði um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.``

Í nál., það kom m.a. fram í máli formanns samgn., hv. þm. Árna Johnsens, er þetta m.a. skýrt með tilvísun í ummæli hæstv. samgrh. þegar hann talaði fyrir þessu frv. á sínum tíma. Þá sagði hæstv. ráðherra m.a., með leyfi forseta:

,,Hér skiptir öllu máli að viðkomandi hafi fengið eða getað fengið vitneskju um upptökuna. Ljóst er að með þessu ákvæði er fjallað um alla aðra en stjórnvöld, þar á meðal einstaklinga, félög og fjármálastofnanir sem ekki þurfa að tilkynna sérstaklega um hljóðritun samtals þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt um hana. Sem dæmi má nefna ákvæði í viðskiptasamningi, almenn ummæli eða tilkynningar í eitt skipti fyrir öll. Fórnarlamb persónuofsókna á samkvæmt því að geta hljóðritað samtöl við brotamann eftir einfalda tilkynningu.``

Þetta jaðrar við að vera skondið en er náttúrlega alvarlegt mál, við erum að fjalla um löggjöf á Alþingi. Hér segir hæstv. ráðherra að fórnarlambi persónuofsókna sé heimilt að taka samtal upp í síma eftir einfalda tilkynningu í eitt skipti fyrir öll. Það þarf sem sagt að tilkynna ofsækjandanum að það standi til að taka hótunina upp á segulband áður en það er heimilt.

Reyndar verður það enn þá undarlegra þegar hæstv. samgrh. og yfirvöld reyna að réttlæta þessa afstöðu. Það hafa þau reynt að gera, m.a. í fréttatilkynningu frá samgrn. um þetta efni 5. jan. árið 2000. Þar er vikið að því að réttur símnotenda til að hljórita símtöl sín skilyrðislaust og hafa forræði yfir þeirri hljóðritun hafi verið skertur í þeim yfirlýsta tilgangi að vernda persónuleg samskipti sem viðkomandi vilji ekki að fari til frekari úrvinnslu eða birtingar í fjölmiðlum. Þetta sagði í fréttatilkynningu frá samgrn. á sínum tíma.

Í þessari fréttatilkynningu segir, með skírskotun til hljóðritunar á símaónæði, að þrátt fyrir að það farist fyrir að tilkynna um hljóðupptökuna skerðist sönnunargildi slíkrar upptöku ekki í einkamáli eða við lögreglurannsókn frá því sem nú er. Ráðuneytið gerir með öðrum orðum ráð fyrir því að dómstóll byggi á sönnunargagni sem aflað er með ólögmætum hætti. Gefur þá auga leið að refsing liggur við slíku broti á fjarskiptalögum hvort sem það er framið af ásetningi eða gáleysi, sbr. 2. mgr. 57. gr. fjarskiptalaganna. Í 57. gr. laganna er fjallað um viðurlög. Þar segir í 1. mgr., með leyfi forseta:

,,Brot á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum, en fangelsi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar eða brot ítrekuð.``

Og í 3. mgr. segir:

,,Brot gegn XI. kafla laganna um leynd og vernd fjarskipta varða refsingu svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr.`` --- Og síðan er fjallað nánar um það.

Með öðrum orðum segir ráðuneytið að sönnunargagnið muni koma að notum enda þótt þess hafi verið ólöglega aflað og við erum að samþykkja lög sem gera ráð fyrir slíku. Slíkt finnst mér vera lögleysa. Við eigum ekki að samþykkja lög nema þau sem við ætlum að borgarinn fari eftir, þ.e. lög sem ætla má að menn vilji og ætli sér að halda. Að auki er í sama lagabálki gert ráð fyrir refsingum séu þessi lög brotin.

Hvað þýðir þetta í reynd? Þetta þýðir að fjölmiðill sem lætur hringja í landsmenn getur með yfirlýsingu í eitt skipti fyrir öll látið þau boð út ganga, þannig að öllum megi ljóst vera, að þeirri vinnureglu sé fylgt að hljóðrita samtöl. Samkvæmt þessari yfirlýsingu sem hér var vitnað til frá hæstv. samgrh. þá á það að halda. Fréttamaðurinn má tala við borgarann og taka samtalið upp á segulband hafi einhverju sinni verið gefin út slík yfirlýsing. En má ég, borgarinn, taka upp samtal við fréttamanninn? Nei, það er lögbrot samkvæmt frv. sem hér er til umræðu. Og það er ekki aðeins lögbrot, það er refsivert athæfi. Í þessum sama lagabálki er vísað til refsinga sem menn skuli sæta hlíti þeir ekki þeim lögum sem hér eru til umfjöllunar. Með öðrum orðum: Fréttamaðurinn á að hafa aðra og traustari réttarstöðu en hinn almenni borgari.

Vilja fréttamenn láta mismuna með þessum hætti? Nei, fréttamenn vilja það ekki. Blaðamannafélag Íslands hefur afdráttarlaust tekið afstöðu gegn þessum lagabreytingum. Blaðamenn hafa ekki kosið að njóta forréttinda á þessu sviði heldur hefur félag þeirra einmitt gagnrýnt að gert sé ráð fyrir að þeir og aðrir, þ.e. stjórnvöld og bankar, fái heimildir í þessu efni umfram viðskiptavini sína.

Auk þessa má benda á að starfsheiti blaðamanns er ekki lögverndað. Ákvæði stjórnarskrár um prent- og málfrelsi heimila hverjum sem er að stunda blaðamennsku. Af þeirri ástæðu er því ógerlegt að skilja þá stétt frá almenningi. Óneitanlega kemur það undarlega fyrir sjónir að fréttamönnum, stjórnvöldum og fjármálastofnunum sé veittur réttur sem viðmælendur þessara aðila hafa ekki. Viðmælandi fréttamanns ætti að hafa sama rétt til að hljóðrita samtal þeirra og sama máli ætti að gegna um viðmælendur fjármálastofnana og stjórnvalda. Það er ekki samkvæmt þessu frv.

Fyrrnefnt frv., sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og tveir aðrir þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fram hér á sínum tíma, var ætlað að taka á þessu máli. Ég tel hins vegar að einfaldasta leiðin sé að nema þetta ákvæði greinarinnar algerlega á brott. Að mínum dómi skiptir það meginmáli hvernig farið er með þessar upplýsingar. Ég lít svo á að gera þurfi mjög skýran greinarmun á hljóðritun annars vegar og notkun hennar eða úrvinnslu hins vegar.

[14:45]

Hljóðritun eigin símtals á í sjálfu sér ekki að vera saknæm heldur hugsanleg ótilhlýðileg birting upptökunnar því að sá sem tekur upp slíkt samtal aflar sér ekki vitneskju um neitt sem hann má ekki heyra eða vita, það er samtal sem viðkomandi á. Hann þarf þó ekki að leggja allt á minnið og hefur ef þörf krefur í höndunum ótvíræða sönnun um hvað honum og viðmælanda hans fór á milli. Starfsfólk kauphalla og blaðamenn kunna að þurfa á því að halda í ákveðnum tilvikum. Þetta er vinnugagn sem fréttamenn og blaðamenn nota.

Um fjölföldun eða dreifingu hljóðritunar, sem telst eðlilegt að leynt fari, má á hinn bóginn beita ákvæðum hegningarlaga eða eftir atvikum siðareglum blaðamanna og sama á að sjálfsögðu við um ólögmæta hlerun.

Væri löglegt að hringja í einstakling og útvarpa samtali við hann á öldum ljósvakans án vitneskju hans? Já, það væri löglegt. Það væri ekki mjög siðlegt en það væri löglegt. Það er hins vegar ólöglegt samkvæmt þessu frv. að taka samtalið upp á segulband og útvarpa því svo.

Erum við ekki komin í einhverjar ógöngur hér? Ég held það. Enda bera þessar lagabreytingar sem hér er talað fyrir þess vott að menn séu að kljást við nokkurn vanda sem ég held að allir viðurkenni.

En hvernig stendur á því að svo mikið kapp er lagt á að koma þessum breytingum í gegn? Hvaða skýringar eru helstar á því að Alþingi eða meiri hluti Alþingis telur sérstaklega brýnt að taka á breytingum á íslenskum lögunum? Ætli það séu ekki tilskipanir frá Evrópu? Ég hugsa það. Og það á við í þessu tilviki hér. En þá ríður líka á að menn skilji þessar tilskipanir rétt en misskilji þær ekki eins og gert er í þessu tilviki.

Af hálfu samgrn. kom fram skýring á umræddu ákvæði 3. mgr. 44. gr. nýju fjarskiptalaganna þar sem segir að lesa megi það grundvallarviðhorf að vinnsla á persónuupplýsingum eigi ekki að fara fram án vitundar manna úr tilskipunum frá Evrópusambandinu, nánar tiltekið úr persónuverndartilskipun 95/46/EB og tilskipun 97/66/EB, um vernd persónuupplýsinga í fjarskiptum. Skýring samgrn. byggist á misskilningi á hinum erlendu réttarheimildum. Hvorki verður séð í þessum tilskipunum að lögð sé skylda á ríkið til að taka upp í lög sín ákvæði um hefta heimild manna til að hljóðrita símtöl sem þeir taka sjálfir þátt í né er af þeim ráðið að þar komi eitthvert grundvallarviðhorf fram sem styður ákvæði íslensku laganna. Þar er hins vegar fjallað um bann við hlerun símtala. Það er fjallað um bann við því að hlera símtöl.

Í 5. gr. tilskipunar 97/66/EB segir m.a., með leyfi forseta, og ég ætla að lesa örfáar setningar hér á ensku:

,,1. Member States shall ensure via national regulations the confidentiality of communications by means of a public telecommunications network and publicly (Forseti hringir.) available telecommunications services.``

(Forseti (GuðjG): Forseti minnir á að ætlast er til að hv. þingmenn tali á íslensku hér og þýði þá erlent mál ef þeir þurfa að vísa í það.)

Ég skal gera það. Ef ég má, með leyfi forseta, ljúka tveimur setningum og þýða síðan það sem ég er að koma að:

,,In particular, they shall prohibit listening, taping, storage or other kinds of interception or surveillance of communi\-cations, by others than users, without the consent of the users concerned, ...``

,,By others than users ...`` Hér er verið að banna hlerun á símtölum af hálfu annarra en þeirra sem í hlut eiga. Og ástæðan fyrir því, herra forseti, að ég las þetta upp á ensku var einfaldlega vegna þess að ég vildi hafa þetta mjög nákvæmt. En það sem ég er að leiða rök að er að þessar tilskipanir Evrópusambandsins, sem menn segja að þessar lagabreytingar byggi á, vísa til hlerana af hálfu annarra en þeirra sem í hlut eiga. Um það fjalla þessar tilskipanir Evrópusambandsins. Það er verið að tala um allt annan hlut en þann sem þessi lagagrein byggir á.

Hver er þá afstaða mín til þessa máls? Og ætla ég ekki að hafa mál mitt miklu lengra. Hún er sú að það beri að einfaldlega fella úr gildi 3. mgr. 44. gr. laganna. Að hún falli úr gildi í stað þess að vera að prjóna við hana eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég vil taka undir það sem hefur komið fram m.a. í áskorun stjórnar Blaðamannafélags Íslands frá 7. jan. sl. í þessa veru, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Blaðamenn nota hljóðupptökur aðallega til að geta haft rétt eftir viðmælendum sínum og hafa að reglu að tilkynna þeim fyrir fram ef ætlunin er að útvarpa viðtalinu. En það getur líka reynst fyllilega réttmætt að birta í fjölmiðlum leynilega hljóðritun símtals. Til dæmis kann lögregla að vilja útvarpa nafnlausri sprengjuhótun í þeirri von að fá ábendingar um hinn seka, og blaðamenn kunna að nýta leynilega hljóðritun símtals til að svipta hulunni af spillingu, svikum og glæpum og um það eru mýmörg dæmi bæði af innlendum og erlendum vettvangi. Nýju fjarskiptalögin taka fyrir þetta. Þau draga úr möguleikum blaðamanna til að rækja eftirlits- og aðhaldshlutverk sitt en greiða fyrir hinum sem hyggja flátt og hafa eitthvað að fela.``

Þetta var tilvitnun í yfirlýsingu frá Blaðamannafélagi Íslands.

Ég vil að það komi mjög skýrt fram í máli mínu að mér finnst það eigi að vera meginregla að sjálfsögðu að fólki sé gerð grein fyrir því þegar samtöl eru tekin upp á segulband. Mér finnst það eigi að vera meginregla og mér finnst það grundvallaratriði í almennum samskiptum fréttamanna og almennra borgara, okkar hinna, að samtölum sé ekki útvarpað sem við okkur eru tekin án vitneskju okkar og án heimildar. Mér finnst að það eigi að vera samskiptaregla sem beri að virða.

Hins vegar finnst mér rangt að setja þetta í landslög og ég er sammála Blaðamannafélaginu að því leyti að hér eigi að byggja á siðareglum blaðamanna auk þess sem við höfum að sjálfsögðu hegningarlög og önnur lög til að styðjast við ef farið er með samtöl á þann hátt sem er beinlínis saknæmur. En mér finnst skipta miklu máli að þessi samskipti byggi á almennum siðareglum, fyrir utan það að ég á óskaplega erfitt með að sjá hvernig hægt er að framfylgja þessum lögum og ég hef reynt að færa nokkur rök fyrir því hér í máli mínu.