Fjarskipti

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 16:28:25 (6723)

2001-04-24 16:28:25# 126. lþ. 110.17 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv. 29/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[16:28]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni samgn., Árna Johnsen, fyrir að reifa þessi mál. Ég saknaði þess að hann svaraði þeim spurningum sem ég bar fyrir hann og vísaði þar sérstaklega í tilskipun frá Evrópusambandinu sem þessi lög hvíla á. Ég hef ekki fengið neinar útskýringar á því enda þótt þau séu reifuð á ófullnægjandi hátt og á misskilningi byggð í meirihlutaáliti samgn.

Þetta er gert til að tryggja rétt einstaklingsins, segir hv. þm. Árni Johnsen. Ég tel að svo sé ekki. Starfsmanni banka er heimilt lögum samkvæmt eða samkvæmt þessu frv., að taka upp samtal við viðskiptavin ef ætla má að það sé vinnuregla. Hins vegar er viðskiptavininum lögum samkvæmt meinað að gera slíkt.

Fjölmiðlamanni er heimilað að taka upp viðtal við viðmælanda. Viðmælandanum er ekki heimilt að taka slíkt viðtal upp ef hann vill nota það sem sönnunargagn. (Gripið fram í: Það er misskilningur, það er gagnkvæmt.) Er það? Ég vildi þá gjarnan heyra þetta úr ræðustól.

Síðan segir hv. þm. að það mundi vinnast prófmál ef útvarpað yrði í beinni útsendingu viðtali sem tekið væri við einstakling. Ég finn því ekki stað í lögunum. Ég er alveg sammála hv. þm. um hina siðferðilegu hlið þess máls, mér finnst það vera rangt, en þess sér ekki stað í lögunum. Ef ætla má að slík útsending sé tekin upp á band og ef ætla má að öllum sé kunnugt um að fjölmiðillinn taki samtöl upp á segulband þá er ekki verið að aðhafast neitt ólöglegt samkvæmt því frv. sem hv. þm. hefur talað hér fyrir. Út á það ganga þessar lagabreytingar. Ég sé því ekki á hvern hátt verið er að verja einstaklinginn með þessum hætti.

En ég óska eftir því að fá nánari útlistun á þessu máli ella vek ég athygli á því að 3. umr. um málið er ólokið því að þetta á eftir að ræða miklu betur.