Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 17:29:17 (6739)

2001-04-24 17:29:17# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[17:29]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg með eindæmum að hlusta á þetta kjaftæði í rauninni, virðulegi forseti, því að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson var ekki viðstaddur fundi nefndarinnar. Ég bar það sérstaklega upp á fundi nefndarinnar hvaða gestum ætti að bjóða og voru engar athugasemdir gerðar við gestalista í þessu tiltekna máli. Engar. Við fórum yfir umsagnirnar og ég spurði sérstaklega að því hvaða gesti ætti að fá á fund nefndarinnar. Beðið var um einn gest og það var fulltrúi Lögmannafélags Íslands og hann var fenginn til nefndarinnar og veitti mjög gagnlegar upplýsingar.

Það er heldur ekki rétt sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sagði áðan að dómstólaráð hefði mælt gegn frv., því hvað segir í umsögn dómstólaráðs í lokin? Þeir mæla hvorki með framangreindri lagabreytingu né leggjast gegn henni. Þeir leggjast ekki gegn lagabreytingunni. Það stendur hér svart á hvítu og ég verð þess vör, herra forseti, að því meira sem rætt er um þetta mál því greinilegra er hversu viðkvæmt þetta er í sálum hv. þm. Samfylkingarinnar.