Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 17:35:53 (6741)

2001-04-24 17:35:53# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[17:35]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Álit laganefndar Lögmannafélags Íslands er skilmerkilegt. Það kristallar í rauninni það sem þessi umræða hefur snúist um, þ.e. að það er einfaldlega ágreiningur í málinu. Menn eru ekki sammála um leiðir. Ég held að allir sem hafa kynnt sér ákveðna refsipólitík sem hefur verið við lýði í landinu og hvaða áhrif harðari refsingar geti hugsanlega haft í för með sér, eins og til að mynda varnaðaráhrif, þá eru þetta hlutir sem menn verða að vega og meta. Það höfum við gert hvort sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson vill taka orð mín trúanleg eða ekki.

Eitt markmiðið með lögunum var m.a., eins og við höfum talað um, að við teljum, og það styður ríkissaksóknari, að dómstólar hafi nokkurn veginn nýtt sér refsimörkin sem felast í almennum hegningarlögum. Við teljum okkur vera að koma til móts við það --- undanfarnar vikur hafa lögreglan og tollurinn til að mynda verið að taka inn, því miður, harðari efni og meira af þeim --- þannig að við séum með ramma sem dómstólarnir geta gripið til í samræmi við brotin. Þetta er ein af röksemdunum. Auk þess erum við að senda skýr skilaboð. Ég tel þetta nægjanlegar röksemdir og mestu röksemdirnar með frv. Síðan getum við farið út í enn frekari refsipólitík og farið út í einmitt þá umræðu enn frekar hvaða varnaðaráhrif þetta hafi. Ég tel þessa leið hafa ákveðin varnaðaráhrif úti í þjóðfélaginu. Ég tel það tvímælalaust.