Grunnskólar

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 19:04:59 (6767)

2001-04-24 19:04:59# 126. lþ. 110.24 fundur 667. mál: #A grunnskólar# (starfstími, próf í íslensku o.fl.) frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[19:04]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hér er enn eitt frv. sem tengist lausn kjaradeilna á ferðinni og er hægt að segja um það í heild sinni að það sé mjög jákvætt og í öllum atriðum til bóta. Í raun og veru er sú spurning kannski efst í huga manns hvers vegna lagagreinarnar hafi ekki áður verið settar í það form sem hér er gerð tillaga um því að svo augljósar virðast a.m.k. sumar breytingarnar vera að þær hefðu átt að blasa við löngu fyrr.

Ég vil sérstaklega fagna 6. gr. frv. sem er í raun og veru óháð lausn kjaradeilunnar en er afar brýnt mál sem hefur verið sjálfsagt frá því að hin samræmdu próf komu en hefur kannski orðið augljósara með hverju árinu. Ég held að hér sé verið að fara hina réttu leið til lausnar á þeim vanda sem það hefur skapað.

Ég vil á þessu stigi fara örfáum orðum um þær greinar sem hér er verið að gera tillögu um breytingar á til að undirstrika það sem ég sagði áðan að hér sé um mjög jákvæðar breytingar að ræða. Það er t.d. sem segir um 1. gr. þar sem er verið að kveða miklum mun skýrar á um að skólanefnd eigi að gera tillögur til skólastjóra og/eða sveitarstjórnar um umbætur í skólastarfi. Í gömlu lögunum var orðalagið miklu óljósara eða þannig að skólanefnd geti gert tillögur til skólastjóra um umbætur í skólastarfi, gagngert þurfti raunverulega ekki að gera það. Þarna er komið til viðbótar að það eigi að fara til sveitarstjórna sem bera að sjálfsögðu ábyrgð á skólastarfinu. Þetta ákvæði er því miklu skýrara og augljóslega til bóta.

Hið sama má í raun og veru segja um 2. gr. frv. sem bætir því við að skólastjóri beri ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn sem er auðvitað eðlilegt eftir að grunnskólinn var færður til sveitarfélaganna að það sé tekið fram vegna þess að í gömlu lögunum var eingöngu talað um að skólastjóri bæri ábyrgð á starfi skólans og veitti honum faglega forustu. Hér er tekinn af allur vafi um það að ábyrgðin er gagnvart sveitarstjórninni.

Þá er ekki síður athyglisverð 3. gr. sem gerir ráð fyrir því að 2. mgr. 24. gr. grunnskólalaganna falli brott en þar er einmitt inni ákvæði um það sem á að sjálfsögðu ekki heima í lögum heldur sé eðlilegt að það sé hluti af starfi og skipulagi hvers skóla. Með leyfi forseta segir í 24. gr. grunnskólalaganna:

,,Skólastjóra er heimilt að fela kennurum árgangastjórn, fagstjórn, leiðsögn nýliða og kennaranema samkvæmt nánari ákvörðun sveitarstjórnar.``

Ekki á að vera þörf á að hafa slík ákvæði í lögum og þess vegna er þetta enn eitt ákvæði sem er til einföldunar og að mínu mati til bóta, það sé eðlilegra að það sé leyst eins og gert er í kjarasamningi og síðan sé það í valdi skólanna hvernig farið er með þessi mál.

Enn má segja það sama um 4. gr., sem er kannski það stóra í því að skapa þann sveigjanleika sem nauðsynlegur er í starfstíma grunnskólanna. Ég held að það orðalag sem hér hefur orðið ofan á sé miklum mun betra en er í lögunum. Gamla orðalagið er þannig, með leyfi forseta:

,,Starfstími grunnskóla skal á hverju skólaári vera níu mánuðir.``

Nýja orðalagið er miklum mun betra:

,,Starfstími nemenda í grunnskóla skal á hverju skólaári vera að lágmarki níu mánuðir.``

Hér er sem sagt heimilað að hafa það í raun lengra ef áhugi og aðstæður leyfa.

En 5. gr. skapar enn á ný sveigjanleika í leyfum og skapar möguleika á því sem hefur orðið nokkuð til umræðu á seinni árum í grunnskólum og ég held að sé í takt við þá breytingu sem orðið hefur í samfélagi okkar, að taka upp svokallað vetrarleyfi í skólum eins og víða er í nágrannalöndum okkar. Það mun væntanlega þróast í einhvern farveg og auðvitað brýnt að eitthvert samstarf verði milli skóla um slíkt þannig að það falli sem best saman. Að sjálfsögðu er óþarfi að ákveða slíkt í lögum. Þess vegna ítreka ég að ég held að hér sé verið að fara hina réttu leið við þessa breytingu.

Síðan kem ég þá að því sem ég sagði í upphafi um 6. gr. að þar held ég að sé einmitt verið að taka á mjög þörfu máli. Ég endurtek það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að sú breyting er ekki tengd lausn kjaradeilu heldur er auðvitað komin til vegna þarfar og ég hef ekki trú á öðru en að allir aðilar séu sammála um að verið sé að stíga í rétta átt.