Kvikmyndalög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 19:10:09 (6768)

2001-04-24 19:10:09# 126. lþ. 110.25 fundur 668. mál: #A kvikmyndalög# (heildarlög) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[19:10]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt frv. til kvikmyndalaga. Margir hafa komið að því að undirbúa þetta frv. og það hefur verið lengi á döfinni að setja hér kvikmyndalög. Við höfum haft lög um kvikmyndamál frá 1984, með síðari breytingum, og kjarni þeirra laga hefur verið starfsemi Kvikmyndasjóðs. En nú nálgumst við þetta verkefni með öðrum hætti en gert er í þeim lögum á þann veg að við leggjum til að það séu almenn markmið og ákvæði um almenn viðhorf af hálfu stjórnvalda til kvikmyndagerðar og síðan sé sérstakur kafli um Kvikmyndamiðstöð Íslands og einnig sérstakur kafli um Kvikmyndasafn Íslands og síðan önnur almenn ákvæði þar sem er m.a. gert ráð fyrir því að menntmrh. hafi heimild til þess að skipa markaðsnefnd kvikmynda sem á að vinna að því að veita innlendum og erlendum aðilum þjónustu er snýr að gerð kvikmynda á Íslandi og öðrum slíkum málefnum.

Frv. endurspeglar þann vöxt sem hefur verið í kvikmyndagerð hér á landi og þá þróun sem orðið hefur og þá staðreynd að íslensk kvikmyndagerð hefur náð verulegum árangri, bæði gagnvart okkur heima fyrir, eins og við vitum öll, og einnig á alþjóðlegum vettvangi. Það er nauðsynlegt að mínu mati að löggjöfin endurspegli þessa þróun og tekið sé á málum með þeim hætti sem gert er í þessu frv. til að skapa þá opinberu umgjörð sem er nauðsynleg í kringum þessa starfsemi. Þess vegna er m.a. lagt til að við breytum Kvikmyndasjóði Íslands á þann veg að hann verði hluti af Kvikmyndamiðstöð Íslands sem hafi með höndum sambærileg verkefni og Kvikmyndasjóður núna fyrir utan að rekstur Kvikmyndasafns Íslands verði sérstakur. Kvikmyndasafnið hefur einnig verið að eflast á undanförnum árum, hefur fengið aðsetur í Hafnarfirði, eins og hv. þm. vita, og þar er nú unnið að því að endurgera Bæjarbíó með það fyrir augum að það verði safnakvikmyndahús, ef þannig mætti að orði komast, þar sem menn geta farið og séð gamlar myndir, en þörf hefur verið á slíku hér á landi. Vonandi tekst sem fyrst að skapa þá aðstöðu sem þarf til þess að Kvikmyndasafnið getið staðið að rekstri þess.

Menn sjá það einnig í umsögn fjmrn. um frv. að gert er ráð fyrir því að framkvæmd frv. leiði til nokkurra útgjalda af hálfu hins opinbera. Í því sambandi er líka nauðsynlegt að hafa í huga að frv. um skilaskyldu, sem ég kynnti hér fyrr á þessum fundi, fjallar líka um kvikmyndir. Þar er gert ráð fyrir því að skipulega verði staðið að því að safna kvikmyndum hér eins og gert er annars staðar og það leiðir einnig til kostnaðar eins og fram kemur í umsögn um þetta frv. og einnig um frv. um skilaskyldu.

Það er líka ákvæði í þessu sem rétt er að minna á eða vekja athygli á og það er um yfirstjórnina. Hún verður í höndum forstöðumanna, annars vegar Kvikmyndamiðstöðvar og hins vegar Kvikmyndasafnsins. Hins vegar verður sett á laggirnar kvikmyndaráð opinberum aðilum til ráðgjafar um aðgerðir í kvikmyndamálum. Ráðið taki ekki ákvarðanir um stjórnsýsluleg eða fjárhagsleg málefni, enda séu þau á ábyrgð forstöðumanna Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndasafns, en ráðið komi að því sem ráðgefandi aðili, t.d. þegar kemur að því að ákveða hvernig staðið skuli að úthlutunum úr Kvikmyndasjóði, hvaða aðferðum verði þar beitt. Gert er ráð fyrir því í frv. að það verði á ábyrgð forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar að fjalla um úthlutun úr Kvikmyndasjóði og það sé hlutverk hans að ákveða úthlutun úr sjóðnum en það sé kveðið á um í reglugerð hvernig úthlutanirnar skuli undirbúnar, hvort sett verði á laggirnar sérstök nefnd eða hvort kallaðir verði til ráðgjafar og þar kæmi kvikmyndaráðið að við mótun slíkra reglna.

Herra forseti. Hér er verið að kynna mál sem hefur verið lengi á döfinni og ég tel að margir hafi beðið eftir að kæmi fram þannig að menn sjái nýjan starfsramma af opinberri hálfu um kvikmyndastarfsemina í landinu. Með þessu frv. er alls ekki verið með neinum hætti að seilast inn á starfssviðið sjálft hjá kvikmyndagerðarmönnum eða hafa afskipti af því sem þeir eru að gera umfram það sem felst í að fjalla um umsóknir þegar leitað er eftir styrkjum heldur að færa þennan starfsramma af opinberri hálfu í það horf sem er talið duga best til að þessi öfluga starfsemi geti haldið áfram að dafna í landinu.

Ég legg til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til hv. menntmn. að lokinni umræðunni.