Útvarps- og sjónvarpssendingar á öll heimili á Íslandi

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 19:20:45 (6771)

2001-04-24 19:20:45# 126. lþ. 110.27 fundur 382. mál: #A útvarps- og sjónvarpssendingar á öll heimili á Íslandi# þál., Flm. HjálmJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[19:20]

Flm. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um útvarps- og sjónvarpssendingar á öll heimili á Íslandi.

Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram athugun á uppbyggingu dreifikerfis sjónvarps og útvarps sem nýtir innviði fjarskiptakerfa í landinu þannig að öll íslensk heimili geti nýtt sér dagskrár útvarps- og sjónvarpsstöðva. Könnun þessari verði lokið á árinu 2001 og í framhaldi hennar verði tímasett áætlun um framkvæmdir.``

Herra forseti. Ég ásamt fleiri þingmönnum lagði fram till. til þál. á þskj. 295 á síðasta þingi sem fjallaði um uppbyggingu dreifikerfis sjónvarpsins þannig að öll heimili gætu nýtt sér dagskrá þess. Þá kom fram eins og reyndar oftsinnis áður hér í þingsal að nokkrir tugir heimila í landinu ná ekki útsendingum sjónvarps. Það er auðvitað ekki vansalaust. Hins vegar eru vankantar á að leysa málið. Menn hafa bent á ýmsar leiðir til þess, t.d. gervihnattaleiðina, þ.e. að koma ekki upp fleiri diskum eða endurvarpsstöðvum fyrir einstaka bæi heldur nýta gervihnetti til þess að ná merkjunum.

Fleira er einnig mögulegt. Það er verið að kanna möguleika á því að koma ljósleiðara eða ISDN-tengingum til allra bæja. Þar með væri lagður grunnur að stafrænum flutningi til allra símnotenda alls staðar í landinu. Þennan grunn væri hægt að nota til að flytja sjónvarps- og útvarpsefni frá dagskrárveitu, ef svo má segja, til notenda. Þá gætu allir nýtt sér þessa leið og sótt í hana það sem mönnum hentaði, hvort sem það væri Ríkissjónvarpið, Stöð 2, Skjár 1 eða hvað svo sem væri, með því að nota þessa nýju tækni. Þjónusta af þessu tagi er í örri þróun og því er sjálfsagt og eðlilegt að athugun fari fram á þeim tæknilegu möguleikum sem í boði eru og hvernig hægt væri að nýta þá sem best, ekki síst fyrir þá sem ekki ná útsendingum ljósvakamiðla vegna lélegra móttökuskilyrða. Eins og ég segi er tæknin í örri þróun og því er full ástæða til að gera á því úttekt hvað hentar best og bregðast síðan við með því að bjóða upp á þær leiðir sem hentugastar eru fyrir alla.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til hv. samgn.