Ný námsbraut við Sjómannaskóla Íslands

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 19:28:59 (6773)

2001-04-24 19:28:59# 126. lþ. 110.29 fundur 664. mál: #A ný námsbraut við Sjómannaskóla Íslands# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[19:28]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hér er hreyft að því er virðist merku máli sem gæti vissulega veitt okkur möguleika í skólakerfinu. Það sem vekur þó athygli mína er sá skóli sem hér er gert ráð fyrir að hæstv. menntmrh. kanni möguleika á vegna málsins. Ég spyr hv. þm. Guðmund Hallvarðsson um hvaða skóla er verið að ræða. Þó ég telji mig þokkalega inni í skólamálum landsins þá er mér ekki kunnugt um að Sjómannaskóli Íslands sé starfandi. Þetta getur hins vegar verið misminni hjá mér og væri fróðlegt að fá upplýsingar um það frá hv. þm. Þetta má vissulega leiðrétta.

Ég fór að velta því fyrir mér hvort ástæða væri til að binda þetta við ákveðinn skóla, hvort ekki væri eðlilegt að kanna hvort ekki væri hægt að koma þessu námi fyrir hér á Íslandi án þess að binda það við ákveðinn skóla. Upp úr því fór ég að velta því fyrir mér hvaða ágæti skóli þetta væri. Ég vona að hv. þm. geti upplýst mig um það.