Ný námsbraut við Sjómannaskóla Íslands

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 19:30:23 (6774)

2001-04-24 19:30:23# 126. lþ. 110.29 fundur 664. mál: #A ný námsbraut við Sjómannaskóla Íslands# þál., Flm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[19:30]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Af gefnu tilefni vegna orða hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar vildi ég geta þess að það er ekki hugmyndin að þessi skóli eigi að vera á Egilsstöðum. Hann yrði í námunda við sjó og höfðum við huga á því að hann yrði við eina stærstu verstöð landsins, þ.e. Reykjavík.

Það er réttmæt athugasemd eða spurning sem hér er varpað fram varðandi Sjómannaskóla Íslands. En þannig hefur hann verið nefndur frá vígslu hans 1944. Það sem hér er átt við er auðvitað sjómannaskólahúsið í Rauðarárholti. (Gripið fram í: Sjómannaskólinn í Reykjavík.) Hér er bæði um Vélskólann og Stýrimannaskólann að ræða, þannig að oftar en ekki er þetta í umræðunni í þeim orðum sem hér eru sett á blað í till. til þál.

Ég vona að þetta verði ekki til þess að flækja málið þó hér sé talað um Sjómannaskóla Íslands. Hins vegar vildi ég benda hv. þm. á að fletta upp í símaskránni og skoða undir heitinu Sjómannaskóli Íslands hvaða stofnanir hann finnur þar undir. Þar undir finnur hann bæði Stýrimannaskólann í Reykjavík og Vélskóla Íslands. Og ef menn halda að hér sé farið með rangt mál, þá er það á misskilningi byggt.