Ný námsbraut við Sjómannaskóla Íslands

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 19:33:40 (6776)

2001-04-24 19:33:40# 126. lþ. 110.29 fundur 664. mál: #A ný námsbraut við Sjómannaskóla Íslands# þál., Flm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[19:33]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Nú fór svo að hv. síðasta ræðumanni varð fótaskortur á tungunni og mér kannski við stjórn pennans, því hv. þm. talaði um að það væri skemmtiferðaskip á leiðinni. Ég veit ekki annað en það sé til staðar og heiti Lagarfljótsormurinn eða eitthvað því um líkt. (Gripið fram í: Það vantar nýtt.)

En varðandi málið í heild sinni þá er aðalatriðið svo sem ekkert endilega hvar við finnum þessari menntun stað. Fyrst og fremst er verið að hugsa um að þarna er húsnæði fyrir hendi og verið er að byggja nemendaíbúðir á lóð Sjómannaskólans.

Ég veit að skóla vantar fyrir starfsfólk skemmtiferðaskipa og það er náttúrlega miklu víðfeðmara nám en bara fyrir skipstjórnarmenn og vélstjóra. Það eru náttúrlega margar starfsgreinar um borð í einu skemmtiferðaskipi eins og hv. þingmenn þekkja og þarf ekki að hafa langt mál um það. Allur sá þjónustukjarni sem þar er þarf mikla kennslu og í því máli þarf auðvitað að horfa fram í tímann.

Sem fyrrverandi formaður hafnarstjórnar Reykjavíkurborgar hef ég haft samband við marga aðila, t.d. menn sem koma að útgerð. Nýverið hefur sú skoðun komið fram frá starfsmönnum Reykjavíkurhafnar, sem hafa mikið samband við þessa útgerðaraðila, að það sé almennt talin mikil vöntun á skóla eins og hér er flutt þáltill. um. Og ég tel að það væri ekki úr vegi, reyndar mjög við hæfi ef eyþjóð, Íslendingar, tækju nú upp kennslu á alþjóðasviði fyrir starfsfólk á skemmtiferðaskipum.