Frumvarp um almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 13:45:15 (6784)

2001-04-25 13:45:15# 126. lþ. 111.91 fundur 483#B frumvarp um almenn hegningarlög# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 126. lþ.

[13:45]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég átti sæti í allshn. þegar umrædd þáltill. var samþykkt um að rannsókn færi fram á viðurlögum og ákvörðun refsinga við afbrotum. Ég vil rifja upp að tildrög þáltill. voru þau að fyrir nefndinni lágu tillögur um að hækka refsirammann í kynferðisafbrotum. Það var einróma álit nefndarinnar undir ágætri forustu núv. dómsmrh. að forsendan fyrir því að verið væri að breyta refsirammanum, hvort sem það væri í fíkniefnabrotum, kynferðisbrotum eða vegna alvarlegra líkamsárása, að fram færi rannsókn eins og samþykkt var á Alþingi og hér hefur verið rædd. Þess vegna kom mér undarlega fyrir sjónir að hæstv. ráðherra skyldi leggja fram þetta frv. án þess að slík rannsókn hefði verið til lykta leidd.

Meira að segja er það svo að nefndin á að afgreiða málið án þess að fyrir hana verði lagt hver staðan er varðandi þá rannsókn. Það voru þrír refsirammar sem átti að skoða, alvarlegar líkamsárásir, kynferðisafbrot og fíkniefnabrot og við vitum ekki einu sinni hvort byrjað hafi verið á fíkniefnabrotunum eða kynferðisbrotunum eða hvar þetta mál liggur. Það er allsendis óeðlilegt að afgreiða málið meðan staðan er með þeim hætti. Ég vil minna á að í tvígang var veitt fjármagn af fjárlögum til að þessi rannsókn gæti farið fram.

Þess vegna er það eðlileg krafa, herra forseti, að milli 2. og 3. umr. fái nefndin upplýsingar um hvar rannsóknin er á vegi stödd. Ég treysti mér ekki, herra forseti, til að greiða því atkvæði núna að samþykkja þetta frv. hæstv. ráðherra fyrr en fyrir liggur að nefndin hafi fjallað eðlilega um málið.