Frumvarp um almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 13:49:14 (6786)

2001-04-25 13:49:14# 126. lþ. 111.91 fundur 483#B frumvarp um almenn hegningarlög# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 126. lþ.

[13:49]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég kalla eins og aðrir eftir því að viðbrögð fáist við þeirri eðlilegu og sanngjörnu kröfu að nefndin fái málið til umfjöllunar á nýjan leik milli 2. og 3. umr. Þingsköp standa einfaldlega til þess þegar rökstudd og jafneðlileg ósk og hér um ræðir kemur fram. Hún var margítrekuð í langri umræðu í gær. Ég tek undir það að þá saknaði ég þess mjög ákveðið að eingöngu væri einn fulltrúi stjórnarliða til andsvara, þ.e. hv. formaður nefndarinnar. Hæstv. ráðherra var fjarverandi sem og allir aðrir fulltrúar stjórnarliða í allshn. Umræðan tók dálítið mið af þeirri staðreynd.

Umræðan leiddi hins vegar í ljós að málið er allt vanreifað, ekki eingöngu það sem hér hefur verið bent á að nefnd er að störfum sem ber að gæta innra samræmis í refsilöggjöfinni og taka út tiltekna þætti, þar á meðal fíkniefnaveröldina sem er að störfum, heldur og hitt að umsagnir sem voru hvað ítarlegastar og menn hljóta að taka talsvert mið af, þ.e. Lögmannafélag Íslands annars vegar og dómarar hins vegar, bentu á að í augnablikinu væri ekki svo brýnt eins og hæstv. dómsmrh. vill vera láta að það þurfi að ljúka því á næstu dögum að rýmka þennan refsiramma. Það var eingöngu í tveimur málum sem menn höfðu komist nær því að nýta þessi 10 ár sem eru hin efri mörk. Efnisatriði málsins eru þannig vaxin að það er sjálfsagt og eðlilegt að við förum mjög vandlega yfir þetta. Hér er um grafalvarlegt mál að ræða sem menn taka ekki ákvarðanir um samkvæmt geðþótta eða samkvæmt einhverjum hrópum og köllum úti í samfélaginu heldur verðum við að skoða þessi mál með sanngirni.

Ég frábið mér það, herra forseti, og það skulu vera lokaorð mín, að menn skuli setja mál upp með þeim hætti að við sem viljum skoða þetta mál málefnalega séum á móti því að taka hart á fíkniefnabarónum. Það er útúrsnúningur og ómerkilegt að halda málum þannig til haga.