Fjarskipti

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 13:52:59 (6788)

2001-04-25 13:52:59# 126. lþ. 111.1 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um lagagrein sem er til komin vegna misskilnings á tilskipun Evrópusambandsins og kveður á um bann við hlerun á símtölum og fjarskiptum. Um slíkt bann eru allir sammála.

Hið umdeilda ákvæði lýtur að banni við því að símtöl séu tekin upp á segulband. Í stað þess að fella þetta ákvæði í lögum niður og taka á hvers kyns misnotkun á markvissan hátt í viðeigandi lögum, þá er með þessari lagagrein verið að spinna inn hin undarlegustu heimildarákvæði fyrir banka og fréttastofur. Þessir aðilar geta tilkynnt í eitt skipti fyrir öll að segulbandsupptökur séu notaðar en viðskiptavinir þeirra, bankanna og viðmælendur fréttamanna, hafa annan og lakari rétt. Og viti menn: Þeir sem verða fyrir símaofsóknum mega ekki taka upp samtal ofsóknarmannsins nema tilkynna honum áður að segulband sé notað. Menn eru komnir út á mjög hálan ís með þessari lagasetningu að ekki sé minnst á lögskýringargögnin sem vísað er til í þessu sambandi.

Ég mun greiða atkvæði gegn þessu en boða brtt. við 3. umr. á grundvelli frv. sem ég hef þegar talað fyrir.