Auðlindagjald af vatnsafli í þjóðlendum

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:52:17 (6809)

2001-04-25 14:52:17# 126. lþ. 112.4 fundur 593. mál: #A auðlindagjald af vatnsafli í þjóðlendum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:52]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst ítreka það sem kom fram hjá hv. þm. og fyrirspyrjanda að mál það sem hér um ræðir er ekki orðið opinbert. Því hefur ekki verið dreift á hv. Alþingi þannig að ég á nokkuð erfitt með að tala mikið um það í fyrirspurnatíma. En ég vænti þess að það styttist mjög í að svo verði og að málið verði tekið til umræðu áður en þing fer heim í vor.

Í frv. til raforkulaga er gert ráð fyrir að réttur til að nýta auðlindir til raforkuvinnslu byggist á leyfi ráðherra. Ekki er því lagt til að fara svonefnda uppboðsleið. Er nálgun frv. mjög í samræmi við gildandi lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og þá er vísað til laga nr. 58/1998, um ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, varðandi leyfi til nýtingar auðlinda í þjóðlendum og gjaldtöku vegna hennar. Þess má geta að samkvæmt lögunum, þ.e. þjóðlendulögunum, er hæstv. forsrh. heimilt að ákvarða eða semja um endurgjald fyrir nýtingu slíkra réttinda í þjóðlendum.

Þetta er fyrst og fremst það sem ég vil láta koma hér fram nú við þessar aðstæður vegna þess, eins og ég sagði áðan, að málið er ekki komið fyrir þingið. Þess vegna á ég erfitt um vik. En ég efast ekki um að þetta frv. verði rætt ítarlega þegar það kemur hér á dagskrá.