Námsstyrkir

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:17:21 (6821)

2001-04-25 15:17:21# 126. lþ. 112.5 fundur 583. mál: #A námsstyrkir# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Varðandi síðasta atriðið í máli hv. þm. þá get ég ekki tekið undir það að útreikningarnir séu lauslegir. Það fór fram sérstök athugun á vegum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Það lá fyrir úttekt á þessum kostnaði og sú skýrsla var lögð fram hér á Alþingi. Síðan koma þingmenn og leggja fram ákveðnar hugmyndir. Þeim hugmyndum hefur verið hrundið í framkvæmd. Í fjárlögin hafa verið settar nákvæmlega þær tölur sem menn töluðu um þegar þessar tillögur voru kynntar og þannig er ekki hægt að segja að það hafi verið lausatök á þessu máli.

Það er einnig rangt að halda því fram að styrkþegunum hafi fjölgað. Það hefur ekki gerst. Hins vegar hefur verið tekið mun skipulegar á umsóknum og farið yfir þær á nýjum forsendum. Ég tel að núna sé úthlutað af meiri sanngirni með tilliti til þess markmiðs sem menn setja sér með þessum fjárveitingum. Að sjálfsögðu er spurning um 20, 30 eða 40 km. Einhvers staðar verða menn að setja slík mörk. Vonandi hafa þau ekki áhrif á byggðaþróunina eða móta afstöðu fólks til þess hvar það býr. En við þurfum að hafa þessa leikreglu þannig að mest fé komi þeim til nota sem þurfa helst á því að halda. Það eru þeir sem búa fjærst frá skólunum, á því byggjast þessar reglur og einnig á kröfunni um ákveðna námsframvindu og að skólar staðfesti að viðkomandi nemandi stundi námið.

Þetta eru allt atriði sem við þurfum að hafa í huga þegar við fjöllum um þessa þætti. Ég vona svo sannarlega að við megum áfram eiga gott samstarf um að efla þetta kerfi og stuðla að því að draga úr misrétti á þessu sviði eins og öðrum.