Fjöldi nemenda í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:44:53 (6833)

2001-04-25 15:44:53# 126. lþ. 112.7 fundur 607. mál: #A fjöldi nemenda í framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:44]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Þær tölur sem hæstv. menntmrh. fór með staðfesta það sem flestir vissu þó auðvitað séu einstaka tölur sem vekja meiri athygli en aðrar.

Það er hins vegar einnig rétt hjá hæstv. ráðherra að þó við töluðum lengi dags um þetta ágæta mál þá ættum við kannski ekki þær lausnir sem þarf til að breyta þeim hlutföllum sem eru á milli bóknáms og verknáms í skólakerfi okkar. Tölurnar sem hæstv. ráðherra fór einmitt með í samanburði við Norðurlöndin sýna í raun og veru hversu alvarlegt þetta er, þ.e. hversu röng þessi skipting er hjá okkur og ástæður eru eflaust margar.

Það er þó eitt atriði sem við höfum staðið okkur illa í sem ég held að við eigum að geta breytt á nokkuð auðveldan hátt, þ.e. að fara að sinna þessum málum miklum mun fyrr í grunnskólunum. Það hefur því miður skort á að við höfum sinnt námsráðgjöf nægjanlega, þ.e. að byrja nógu snemma í grunnskólunum, komið upplýsingum nógu vel til skila til grunnskólanemendanna meðan þau eru að velta þessu fyrir sér þannig að þau geti m.a. fengið æfingu í því að taka ákvörðun, ekki endilega ákvörðun sem stendur alla ævi, heldur að miða að einhverju marki sem þau hafa sett sér.

Herra forseti. Það er eitt til viðbótar, og það er það sem okkur skortir algjörlega, og það er að fylgja eftir þeim nemendum sem skrá sig ekki til framhaldsskólanáms.