Rafrænar undirskriftir

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 11:38:34 (6857)

2001-04-26 11:38:34# 126. lþ. 113.4 fundur 524. mál: #A rafrænar undirskriftir# frv. 28/2001, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[11:38]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá efh.- og viðskn. við frv. til laga um rafrænar undirskriftir.

Ef frv. verður að lögum verða til ný heildarlög um rafrænar undirskriftir. Á því er töluverð þörf, ekki síst vegna þess að rafræn viðskipti eru að ná sér á strik hér á landi og ákvæði þess vegna nauðsynleg í lögum um rafrænar undirskriftir, skilgreiningar á þeim, réttaráhrif, hvernig rafrænar undirskriftir verða til, hvaða aðilar gefa út svokallaða lykla og hvernig með þessi mál er almennt farið.

Efh.- og viðskn. sendi málið víðs vegar til umsagnar og fékk jafnframt allmarga aðila til fundar um málið.

Nefndin gerir tillögu til breytinga á frv. í fimm liðum.

Í 1. 1ið brtt. er gerð tillaga um breytingu á 4. gr. sem fyrst og fremst gengur út á að skýra betur það sem þar segir.

Í 2. lið brtt., sem mest umræða varð um í nefndinni, er gerð tillaga um breytingu á gjaldtöku vegna starfsemi vottunaraðila og eftirlit með þeim en þá er farin sú leið að vottunaraðili sem gefur út fullgild vottorð skuli greiða gjald að fjárhæð 1 millj. kr. á ári til að standa straum af kostnaði við eftirlit samkvæmt lögum þessum. Ef vottunaraðili byrjar eða hættir starfsemi á gjaldárinu skal lágmarksárgjaldið ákvarðað í réttu hlutfalli við þann tíma sem starfrækslan varði á árinu. Eftirlitsgjaldið á að renna beint til Löggildingarstofu og verða innheimt af henni. Þetta er töluverð lækkun frá því sem fyrirhugað var samkvæmt frv. en nefndin telur ástæðu til að fara rólegar af stað með gjaldtöku á vottunaraðila þar sem óljóst er hvernig þessi mál muni þróast. Enda er líka í 5. lið brtt. frá nefndinni gert ráð fyrir því að þessi kafli frv. verði endurskoðaður eftir tvö ár frá gildistöku laganna með hliðsjón af reynslu af eftirlitinu og umfangi þess og hvaða rök eru þá til þess að endurskoða gjaldið.

Í 3. lið brtt. er talað um tilflutning á greinum í frv.

Í 4. lið brtt. er gerð tillaga um nýtt orðalag á d-lið 22. gr. sem er þess efnis að ,,vottorðið eða vottunaraðilinn er viðurkenndur í tvíhliða eða marghliða samningum milli Íslands, Evrópubandalagsins, ríkja utan Evrópubandalagsins eða alþjóðlegra stofnana.`` Þetta hefur engan efnislegan tilgang annan en þann að rætt er í frumvarpstextanum sjálfum um stofnanir en samkvæmt brtt. er bætt við ,,í tvíhliða og marghliða samningum``.

Virðulegi forseti. Þessar brtt. eru fluttar af nefndinni allri og ég vonast til að málið geti fengið brautargengi í þinginu.