Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 14:03:41 (7004)

2001-04-27 14:03:41# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GÖ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[14:03]

Guðrún Ögmundsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra nefndi forvarnastarfið. Ég vil endilega taka undir að það hefur verið afar farsælt. Ég vil bara minna núna á 10. bekkjar ferð með foreldrum. Nú er ungt fólk ekki lengur fullt í bænum. Einhvers staðar byrjar þetta. Það er því allt saman að skila sér og ekki hvað síst meðvitund foreldra.

Vel má vera að ítrekunartíðni sé lág en við skulum ekki gleyma því að við erum að fást við alveg ofboðslega klókt lið. Það kann líka að passa sig. Það fær líka nýja til þess að bera fyrir sig o.s.frv. þannig að við erum alltaf að sjá stærri og stærri hóp sem er sakfelldur en er þó kannski samt sem áður allt angi af sömu klíkunni. Það eru líka alveg gríðarleg klókindi í þessum geira. Fyrir því þurfum við ekki síst að vera vakandi núna og ekki hvað síst fyrir því að við erum líka að komast í þessi alþjóðlegu tengsl. Það sem er að skila sér best núna er samstarf löggæslunnar, bæði tollavarða og lögreglu. Það er líka ástæðan fyrir því að mjög mikið af dópi finnst. Það er búið að taka langan tíma að koma þessu samstarfi á, en núna er það líka að verða mjög farsælt og er að skila sér. En við megum ekki gleyma því að við erum að fást við alveg gríðarlega klókan hóp.