Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 15:01:09 (7014)

2001-04-27 15:01:09# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[15:01]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa furðu minni á þessu andsvari hjá hv. þm. sem er sjálfur lögfræðingur að mennt eins og sú sem hér stendur. Hann veit auðvitað um þrískiptingu ríkisvaldsins og þó að löggjafarvaldið setji einhvern refsiramma í lög er það ekki þeirra að segja til um hversu þungir dómar eru. Það eru dómarar sem dæma. Þó að ég hafi þá skoðun að það ætti að þyngja dóma þá geri ég það ekki með því að veita atkvæði mitt frv. af þessu tagi. Ég bið menn að hafa það í huga, þannig að það sé alveg skýrt.

Ég fagna hins vegar því að mér sýnist að hv. þm. Samfylkingarinnar hafi kannski skipt um skoðun og séu komnir í hóp stjórnarliða sem vilja veita þessu máli góðan framgang á þinginu.