Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 15:08:14 (7019)

2001-04-27 15:08:14# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. gleðst einlæglega yfir því að eingöngu einn umsagnaraðila hafi mælt gegn frv. Hæstv. ráðherra lét þess ekki getið að ekki einn einasti umsagnaraðili mælti með því, ekki einn einasti. Dómstólaráð, eðli máls samkvæmt, tók ekki beina afstöðu til frv. en ítarleg umsögn þess segir allt sem segja þarf og það er búið að fara rækilega yfir það. Þar er goldið varhug við þessari stefnumörkun þannig að fram hjá því verður ekki horft.

Auðvitað skil ég það að hæstv. ráðherra sé dálítið órótt yfir þeirri staðreynd að formaður dómstólaráðs er einnig formaður þeirrar rannsóknarnefndar sem nú er að störfum og það er skiljanlegt. Á einum stað stendur, með leyfi herra forseta:

,,... er nauðsynlegt að kanna viðurlög við afbrotum með samanburði og rannsóknum á refsingum eftir brotaflokkum og innan þeirra, auk þess sem þróun viðurlaga verði metin eftir því sem unnt er. Slíkar rannsóknir og upplýsingar um sakamál og meðferð þeirra eru nauðsynlegar fyrir faglega umræðu um þessi málefni og mótun refsistefnu við lagasetningu og endurskoðun refsilaga.``

Hvað var ég að lesa, herra forseti? Greinargerð allshn. undir forustu hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur. Hvað hefur breyst frá 1998 í þessum efnum? Af hverju má ekki bíða haustsins og hafa allar tiltækar upplýsingar við höndina?

Ég sagði í fyrri ræðu minni að vel gæti farið svo að mér verði sýnt fram á að þessi breyting ein skilaði því markmiði sem að er stefnt og ekki dreg ég í efa vilja hæstv. ráðherra til þess og að hún trúi því einlæglega. En staðreyndir verða að tala sínu máli. Þess vegna var það beiðni mín og er enn að þessi mál verði tekin upp í heildstæðu samhengi við aðra brotaflokka og önnur ákvæði hegningarlaga.