Almenn hegningarlög

Föstudaginn 27. apríl 2001, kl. 15:12:46 (7021)

2001-04-27 15:12:46# 126. lþ. 114.12 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að teygja þessa umræðu á langinn. Mig langar aðeins að segja örfá orð í lok hennar.

Hæstv. ráðherra hafði á orði að ætla mætti af orðaskiptum hennar við mig að sinnaskipti hafi orðið af minni hálfu í afstöðu til þessa máls. Það er fjarri lagi. Þvert á móti hef ég sannfærst í þeirri trú minni og skoðun að málið sé allt vanreifað þegar það kemur til kasta Alþingis og í þessari umræðu hefur verið leitt ítarlega í ljós hvað upp á vantar.

Ég átta mig hins vegar á þeim veruleika sem við blasir. Frv. verður gert að lögum á næstu dögum. Það er þingmeirihluti þar á baki. Þingflokkar stjórnarflokkanna hafa samþykkt það áður en það kemur til þings. Meiri hluti stjórnarliða hefur samþykkt það í allshn. enda þótt hér hafi framsóknarmenn eins og oft áður látið sig vanta í umræðunni og er þögn þeirra hrópandi. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem það gerist í mikilvægum alvörumálum á borð við það sem hér um ræðir að þeir láti sig vanta. Það er önnur saga.

Ég ætla ekki að fara yfir þær röksemdir sem hér hafa verið fram færðar. Þær hafa verið grundvallaðar á málefnum og við höfðum ekki heyrt um stóryrði á borð við þau að efasemdir okkar, spurningar og athugasemdir bæru þess merki að við værum deigir í baráttunni gegn fíkniefnum. Það vita menn auðvitað að er alrangt og ekki í neinu samræmi við reynslu mála og málflutning sem hér hefur verið uppi hafður í þessum málaflokki.

Ég vil taka það fram líka að ég hef ekki nokkrar efasemdir um að hæstv. ráðherra og hennar fólki gangi gott til og trúi því að þetta hafi í raun áhrif í þá veru sem til er ætlast, nefnilega að fæla einstaklinga frá því að fremja hina alvarlegu glæpi á þessum vettvangi. Það er skoðun þeirra þó að eðlilega hafi gengið illa að skjóta undir hana stoðum og rökum.

Ég sagði áðan og ég ætla að segja það aftur að áhyggjur mínar eru fyrst og síðast þær að út í frá muni þetta virka þannig að hið háa Alþingi sé að senda skilaboð út í samfélagið og þennan fíkniefnaheim um að nú verði tekið fastar á þessum hvítflibbaglæpamönnum þar sem brotavilji er skýr og alger, þessum sölumönnum dauðans, og að nú verði tekið á því. En ekkert, herra forseti, liggur fyrir í þeim efnum. Það er dómaframkvæmd sem ræður för í þeim efnum. Það er heldur ekkert í hendi sem segir okkur að þessi breyting ein og sér hafi nokkurn fælingarmátt innbyggðan í sjálfu sér. Ekkert er heldur fyrirliggjandi um að þessi breyting ein og sér geti ekki hugsanlega afskræmt innra samræmi í hegningarlögum og refsiviðurlögum almennt. Þessi göt í málflutningnum, þessi göt í undirbúningi málsins valda mér áhyggjum og verst af öllu í þessum alvarlega heimi, brotaheimi, er hið falska öryggi. Ég hef einmitt áhyggjur af þessum skilaboðum sem í orði kveðnu hljóma þannig að þetta muni breyta miklu í baráttunni gegn fíkniefnavandanum, og menn vilja trúa því. En svo gerist ekki nokkur skapaður hlutur. Það er verst af öllu að búa til einhvers konar falskar væntingar sem ekki er innstæða fyrir þegar allt kemur til alls. Það er verst af öllu og það er ástæða til þess að óttast að svo geti verið í ljósi þess sem hér hefur verið rætt.

Ég hef sagt það allan tímann, herra forseti, að ég get ekki og hef ekki samvisku minnar vegna, í ljósi þeirra staðreynda sem við blasa og hafa verið ítrekaðar margsinnis, staðið að þessari breytingu. Ég vil hins vegar ekki standa gegn henni. Ég held að út af fyrir sig þurfi hún ekki að vera hættuleg eða hafa í öllu falli mjög bein neikvæð áhrif á baráttuna gegn fíkniefnum. Það hef ég aldrei sagt. En ég er hins vegar engan veginn viss um að hún hafi jákvæð áhrif í þessari baráttu. Ég vildi því láta það koma fram, af því að ég veit að þetta mál verður samþykkt, að ég mun ekki greiða atkvæði við afgreiðslu þess. Ég er satt að segja viðbúinn hinu versta en vona hið besta og meira er ekki hægt að gera þegar svona er í pottinn búið.