EES-samstarfið

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 10:26:00 (7234)

2001-05-09 10:26:00# 126. lþ. 117.2 fundur 720. mál: #A EES-samstarfið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[10:26]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Árangursrík framkvæmd EES-samningsins í heild er helsta forsenda íslenskra áhrifa í EES-samstarfinu. Íslensk stjórnvöld hafa frá upphafi leitast við að standa vörð um framkvæmd samningsins og lagt áherslu á að um gagnkvæma hagsmuni samningsaðila sé að ræða. Þetta endurspeglast m.a. í víðtækri þátttöku íslenskra sendierindreka og sérfræðinga í starfi nefnda og stofnana sem falla undir samninginn þar sem hinir íslensku fulltrúar hafa beitt sér mjög í þeim málum sem augljóslega varða hagsmuni Íslands, t.d. í fiskimjölsmálinu.

Íslensk stjórnvöld hafa einnig lagt áherslu á að upphaflegt pólitískt markmið EES og stofnanakerfi samningsins sé að fullu virt. Þetta á ekki síst við um hlutverk og valdsvið sameiginlegra stofnana. Hefur stundum orðið vart við vilja til að sniðganga Eftirlitsstofnunina í einstökum málum, hvort heldur vegna tilrauna til hagnýtrar einföldunar eða jafnvel vegna tregðu til að viðurkenna stöðu stofnunarinnar. Í þessu efni hafa íslensk stjórnvöld reynt að sýna ýtrustu árvekni.

Þegar kemur að formlegum og óformlegum fundum ráðherra og embættismanna með kollegum frá öðrum aðildarríkjum EES eru öll viðeigandi tilefni notuð af Íslands hálfu til að fjalla um stöðu og framkvæmd EES-samningsins eða einstök mál sem falla undir hann. Með því er athygli vakin á samningnum sjálfum og þeim skuldbindingum sem í honum felast og þætti Íslands í framkvæmd samningsins. Þetta er einn þáttur til að viðhalda og tryggja áhrif Íslands í EES-samstarfinu.

Umræður hér á landi um stöðu EES-samningsins og áhrif Íslands á hann á undanförnum missirum eru m.a. afleiðing af stöðugu sjálfsgagnrýnu mati sem jafnframt er til þess fallið að gera þá sem taka þátt í þessu samstarfi betur meðvitaða um þá veikleika sem eru fyrir hendi og sem gerir okkur betur kleift að taka á þeim.

Frá íslenskum sjónarhóli er EES-samningurinn óvenjumikilvægur og því nauðsynlegt að standa vörð um hann með því að benda á hugsanlega misbresti í framkvæmdinni. Þá er ónefnd nauðsyn þess að skoða framkvæmdina í víðara samhengi samskipta Íslands við ESB. Sem dæmi um þetta má nefna Evrópuskýrsluna á liðnu ári og nýlega ákvörðun utanrríkisráðherra Íslands og Noregs að fá embættismönnum það verkefni að greina helstu vandamálin við framkvæmd EES-samningsins og að undirbúa frekari skoðanaskipti ráðherranna um þetta efni á komandi sumri.

Varðandi aðra spurninguna vil ég segja að það er ekki beinlínis í verkahring utanrrh. Íslands að gefa Evrópusambandinu ábendingar um tilhögun starfsþjálfunar eða upplýsingamiðlunar á meðal starfsmanna þess. Á hinn bóginn er því ekki að leyna að almenn þekking á EES-samningnum innan ESB virðist fara minnkandi. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Þar má fyrst nefna eðlilegar tilfærslur starfsmanna þannig að þeir sem komu að samningsgerðinni í upphafi eru ekki lengur til staðar. Í öðru lagi var samningurinn gerður við ólíkar aðstæður þar sem fimm EES/EFTA-ríki voru á leið inn í ESB en eftir stóðu þrjú smærri ríki sem gjalda að vissu leyti velgengninnar í framkvæmd samningsins. Í þriðja lagi hefur færst aukinn hraði í samrunaferli ESB á undanförnum árum og stækkunarferlið tekur stöðugt meiri tíma og orku sem hefur áhrif á þessi mál.

Af ofangreindum ástæðum hefur orðið vart við tilhneigingu á meðal sumra starfsmanna ESB til að horfa fram hjá þeirri sérstöðu sem EFTA/EES-ríkin hafa sem þátttakendur í innri markaðnum og setja þau í flokk með öðrum svonefndum þriðju ríkjum, sem hafa flest takmarkaðri aðgang að ESB. Þar við bætist að EES-samningurinn á sér enga hliðstæðu í sögu ESB og margir starfsmenn þess eru óvanir því fyrirkomulagi sem samningurinn felur í sér. Af Íslands hálfu er ekkert tækifæri látið ónotað til að vekja athygli á sérstöðu samningsins og vísa á bug skilgreiningum um að hér sé um þriðju ríki að ræða. Íslensk stjórnvöld hafa eftir atvikum stuðlað að og stutt kynningu á EES-samningnum í heild eða einstökum þáttum hans fyrir starfsmönnum ESB og sendierindrekum aðildarríkja þess. Má nefna sem dæmi að fyrir frumkvæði íslenskra stjórnvalda hafa verið haldin á vegum EFTA námskeið í Brussel um EES-samninginn, ætluð starfsmönnum ESB og starfsmönnum aðildarríkja ESB, sem hafa verið afskaplega vel heppnuð.

Loks má geta þess að Ísland hefur lagt til innan EFTA að í tengslum við fundi nefnda vegna fríverslunarsamninga samtakanna við þriðju ríki verði haldnar ráðstefnur um EES-samninginn og hagsmuni EFTA-ríkjanna sem vonandi skilar sér í aukinni þekkingu innan ESB um samninginn þegar þessi ríki gerast aðilar.

Að mati utanrrn. er e.t.v. of djúpt í árinni tekið að segja að umrætt þekkingarleysi ógni íslenskum hagsmunum í samstarfinu. Það breytir því ekki að fjöldi embættismanna kynnist daglegri framkvæmd EES-samningsins í störfum sínum og þeir draga eðlilega ályktanir af vinnuumhverfi sínu á hverjum tíma.