EES-samstarfið

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 10:30:07 (7235)

2001-05-09 10:30:07# 126. lþ. 117.2 fundur 720. mál: #A EES-samstarfið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., BH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[10:30]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að vekja máls á þessu og tek undir gagnrýni hennar á þá mynd sem við blasir hjá hæstv. ríkisstjórn varðandi EES-samningsins.

Þjóðin fær vægast sagt misvísandi skilaboð, herra forseti. Hæstv. utanrrh. hefur tekið undir áhyggjur þeirra fjölmörgu sem telja áhrif Íslands í EES-samstarfinu fara þverrandi og vill undirbúa viðbrögð við því ef sú þróun heldur áfram. Hæstv. forsrh. fer hins vegar í víking til Brussel til að leita sér vopna fyrir þeirri skoðun sinni að allt sé í stakasta lagi varðandi framtíð EES-samningsins.

Herra forseti. Við fáum gerólík skilaboð varðandi það hvað ríkisstjórnin hyggist gera í þessum efnum og þess vegna hljótum við að spyrja:

Hver er stefna ríkisstjórnar Íslands varðandi framtíð EES-samningsins?

Við því tel ég ekki hafa komið fram nægilega viðhlítandi svör þótt það sé fyllilega ljóst af minni hálfu, herra forseti, hver vilji hæstv. utanrrh. er í þessum efnum en því miður hafa skilaboðin frá hæstv. forsrh. verið í aðra átt.