EES-samstarfið

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 10:39:18 (7240)

2001-05-09 10:39:18# 126. lþ. 117.2 fundur 720. mál: #A EES-samstarfið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[10:39]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er eins með EES-samninginn og öll önnur mannanna verk að hann hefur sína kosti og sína galla. Ég ætla ekki að halda því fram að hann sé í sjálfu sér aðalvandamálið í þessu sambandi. Aðalvandamálið er það að það vald sem var áður hjá framkvæmdastjórninni --- en það er framkvæmdastjórnin sem við eigum samskipti við í okkar daglega starfi --- hefur verið fært að hluta til til ráðherranefndarinnar og Evrópuþingsins þar sem við eigum tiltölulega lítinn aðgang og við erum að reyna að bregðast við eftir því sem við getum. Það er því staðreynd að ýmislegt sem er verið að ákveða er ákveðið undir áhrifum þessara aðila án þess að við tökum beinan þátt í því.

Þetta eru ákveðnar staðreyndir sem blasa við. Vel má vera að menn geti sætt sig við það ástand til langrar frambúðar sem getur valdið verulegum erfiðleikum fyrir Ísland í framtíðinni. Með því er ég ekki að segja að þetta hafi valdið okkur verulegum erfiðleikum fram til þessa. Mikilvægt er að menn ræði þessa stöðu eins og hún er og geri sér alveg grein fyrir því.

Utanrrn. hefur fyrir sitt leyti reynt eftir því sem kostur er að styrkja framkvæmd EES-samningsins og leita eftir því að við komumst inn á samstarfssvið sem við eigum ekki aðild að, en þeim samstarfssviðum fer mjög fjölgandi því að Evrópusambandið hefur ákveðið samstarf í ýmsum málum sem var ekki fyrir hendi þegar EES-samningurinn var gerður. Þetta á við um Schengen, sem við höfum fengið aðild að, þetta á við um öryggis- og varnarmál, sem við höfum lagt mikið verk í að eiga meiri aðild að. Ég gæti haldið áfram að tala um samstarfssvið sem við höfum ekki aðgang að en höfum getað samið okkur að, a.m.k. í þeim tveimur afmörkuðum málum sem ég nefndi áðan.