Ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 12:11:18 (7273)

2001-05-09 12:11:18# 126. lþ. 117.10 fundur 606. mál: #A ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[12:11]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir lagði fram þrjár spurningar um meðferðarstörf og ferðakostnað aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda á þskj. 976 og hún hefur gert grein fyrir því um hvað þær eru og hvernig þær hljóða.

Eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda skal tekið fram í upphafi að spurningar þessar eiga vart við á sviði heilbrrh. því að eins og kunnugt er heyrir öll starfsemi Barnaverndarstofu og þá um leið unglinga á meðferðarstofnunum hennar undir félmrn. sem getur betur svarað til um hvaða aðferðum er beitt á þessum stofnunum. Stofnanir Barnaverndarstofu eru ekki heilbrigðisstofnanir heldur má áætla að þar séu vandamál unglinganna skilgreind sem félagsleg vandamál og það uppbyggjandi starf sem þar fer fram í þeirra þágu fari fram á þeim nótum. Þessi meðferð er í flestum tilfellum framhaldsmeðferð eftir afeitrun ef hennar er þörf. Ungir fíkniefnaneytendur sem fá meðferð hjá heilbriðiskerfinu eru oftar sendir á Vog hjá SÁÁ og er það fyrst í stað um skammtímaafeitrun að ræða. Síðan fá þeir meðferð sína utan heilbrigðisstofnana og það einna helst á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu víðs vegar um land. Þessum meðferðum fer fjölgandi.

Þessu ferli má að mörgu leyti líkja við meðferðarferli áfengissjúklinga nema hvað sá aðili sem sér um æskulýðsmál í stjórnkerfinu, félmrn. og stofnanir þess, sjá um félagsmálaþátt meðferðarinnar gagnvart unglingum. Heilbrigðisstarfsfólk er ekki á launaskrá hjá Barnaverndarstofu og það starfar ekki á meðferðarstofnunum hennar en þjónustusamningur hefur verið gerður við barna- og unglingageðdeildina um heimsóknartíma, sérstaklega við heimili Barnaverndarstofu að Stuðlum. Þess má geta að meðferðarheimili Barnaverndarstofu taka við unglingum með margvísleg vandamál og er leitast við að aðlaga meðferðina mismunandi félagslegum þroska ungmennanna.

Spurningar 2 og 3 eru sömu spurningar og þingmaðurinn lagði fyrir hæstv. heilbrrh. á þskj. 180 á haustþingi 1998 og var þeim svarað þar eins og fram kom í framsögu hv. þm. Heilbr.- og trmrn. hefur ekki stjórnskipulegt vald yfir þessum meðferðarstofnunum. Það hefur ekki upplýsingar um ferðir einstaklinga sem eru að fara í eða koma úr meðferð og ekki um ferðir foreldra eða aðstandenda sem taka þátt í meðferðinni. Engar reglur eru í gildi um þátttöku almannatryggingakerfisins í ferðakostnaði aðila á vegum félmrn. Hér er eins og áður segir um skilgreinda félagslega meðferð að ræða án þess að heilbrigðisstarfsfólk komi við sögu en ferðakostnaðarreglur almannatrygginga taka til sjúklinga á ferð til eða frá heilbrigðisstofnunum eða til frekari læknismeðferðar samkvæmt tilvísun læknis. Hér er ekki um það að ræða.

Þingmaðurinn spyr um það að lokum hvort heilbrrh. muni beita sér fyrir breytingu á þessu starfssviði. Það segir sig eiginlega sjálft að frumkvæði í þeim efnum verður að koma frá þeim sem fjallar um þann málaflokk. Hins vegar er heilbrrh. og heilbrrn. ætíð tilbúið til viðræðu um það sem verða má til bóta varðandi þennan viðkvæma málaflokk.