Lagaheimild til að skylda sakborninga til dvalar á meðferðarstofnun

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 12:34:09 (7282)

2001-05-09 12:34:09# 126. lþ. 117.12 fundur 617. mál: #A lagaheimild til að skylda sakborninga til dvalar á meðferðarstofnun# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[12:34]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er staðreynd að á undanförnum árum hefur þeim unglingum fjölgað sem brotið hafa af sér þannig að mál þeirra hafa endað hjá dómstólum. Þetta er m.a. afleiðing aukinnar fíkniefnaneyslu ungmenna.

Í nokkrum tilvikum er um að ræða það alvarleg afbrot að ekki verður komist hjá fangelsisdómi. Mín skoðun er sú að þrátt fyrir ýmsar úrbætur í fangelsismálum á síðustu árum sé langt í frá að um sé að ræða bestu hugsanlegar aðstæður fyrir unglinga sem brotið hafa af sér, oftar en ekki í tengslum við vímuefnanotkun. Oft má rekja ógæfu þeirra til erfiðrar barnæsku. Hér er því um veika einstaklinga að ræða sem þyrftu þá aðhlynningu og hjálp sem litlir möguleikar eru á að veita í fangelsum landsins.

Það er því af hinu góða að samkvæmt lögum er heimilt að beita öðrum refsiúrræðum en fangelsun og í flestum tilvikum er það gert. Eins og sjá má í skýrslu Fangelsismálastofnunar er ákvörðun eða fullnustu refsingar í flestum tilvikum frestað. Það er þó bundið ákveðnum skilyrðum svo sem að viðkomandi brjóti ekki af sér á meðan á frestun stendur. En samkvæmt lögum er einnig heimilt að beita öðrum skilyrðum sem m.a. er ætlað að stuðla að því að sá sem gerst hefur brotlegur við lög bæti sig á skilorðstímanum. Þessar nokkuð víðtæku heimildir eru mikilvægar þegar horft er til unglinga sem brotið hafa af sér. Þær eru hins vegar algjörlega gagnslausar ef ekki er hægt að fylgja þeim eftir þegar dómstólar hafa ákveðið að þeim skuli beitt.

Ein slík heimild er í 4. tölulið 57. gr. almennra hegningarlaga. Þar er kveðið á um að skikka megi þann sem sem brotið hefur af sér til dvalar á meðferðarstofnun eða hæli, eins og það er orðað í lögunum, í tiltekinn tíma, allt að 18 mánuðum, ef venja þarf hann eða hana af notkun áfengis eða deyfilyfja, en ella allt að einu ári.

Í erindi sem Ingibjörg Benediktsdóttir, nýskipaður hæstaréttardómari, hélt fyrir u.þ.b. ári á málþingi um unga afbrotamenn kom fram að þessari heimild hefði afar sjaldan verið beitt af dómstólum, fyrst og fremst vegna þess að ef sakhæfur unglingur sem brotið hefur af sér er skikkaður til dvalar á sjúkrastofnun eða meðferðarheimili er engin trygging fyrir því að laust pláss á slíkum stofnunum sé fyrir hendi. Því er dómstólum gert erfitt um vik að nýta heimildina.

Í erindi Ingibjargar kom fram að á árunum 1994--1998 hafi þessu úrræði aðeins verið beitt tvisvar sinnum þegar um var að ræða unga afbrotamenn. Það er alvarleg staðreynd að í sumum tilvikum er ekki einungis um það að ræða að erfitt getur reynst að fylgja eftir ákvörðun dómstóla þegar sérstökum skilyrðum er beitt við frestun á ákvörðun eða fullnustu refsingar heldur getur aðstöðuleysi beinlínis komið í veg fyrir að úrræði eins og það að skikka unga afbrotamenn í meðferð vegna áfengis- og vímuefnaneyslu sé notað af dómstólum. Því spyr ég:

Hversu oft á árunum 1995--2000 hafa dómstólar beitt ákvæði 4. tölul. 57. gr. almennra hegningarlaga þess efnis að heimilt sé að skylda sakborning til dvalar á meðferðarstofnun í allt að 18 mánuði vegna áfengis- og deyfilyfjanotkunar, og hve oft hafa átt í hlut sakborningar 18 ára og yngri?