Efnahagsmál og gengisþróun krónunnar

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 13:41:31 (7293)

2001-05-09 13:41:31# 126. lþ. 118.94 fundur 517#B efnahagsmál og gengisþróun krónunnar# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það væri óskandi að hæstv. forsrh. yxi einhvern tímann upp úr sandkassanum og einhvern tímann væri hægt að fá að ræða við hann efnahagsmál án þess að hann sendi skútyrði eða hnefafylli af sandi í andlit allra þeirra sem vilja ræða við hann um það sem á bjátar.

Ef menn lesa t.d. greinargerðir fjármálastofnana sem birtar eru á heimasíðum þeirra í dag kemur í ljós að menn óttast mjög að vaxandi verðbólga fari að bíta fast í afkomu fyrirtækjanna þegar líður fram á þetta ár. Þá er hætta á því að vegna aukins fjármagnskostnaðar, vegna hækkandi launakostnaðar, neyðist fyrirtækin til að velta þessum verðhækkunum áfram út í verðlagið. Það er hættan sem við ættum að ræða hér í dag. Hæstv. forsrh. ætti að ræða það hér í dag í staðinn fyrir að senda skútyrði að hverjum einasta manni sem hefur vogað sér að benda á það sama og allir sérfræðingar, innlendir og erlendir hafa gert.

Herra forseti. Það er gúrú hæstv. forsrh., seðlabankastjóri, sem segir í Morgunblaðinu, að aðlögunin sé harkalegri en vonast hafi verið eftir. Þá er spurningin: Getum við gripið inn í atburðarásina og náð mjúkri lendingu sem væri öllum til hagsbóta, ekki síst venjulegu launafólki? Það er ekki hægt með vaxtalækkunum vegna gengisþróunarinnar og það liggur líka fyrir hjá Seðlabankanum. Þá er spurning, herra forseti, hvort hægt sé að fara þá leið sem ég hef talað fyrir, að menn grípi til skattalækkana eða skattaívilnana fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Ég tel reyndar líka, herra forseti, að grípa eigi til skattalækkana fyrir fólkið í landinu. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að lýsa samhliða yfir afnámi skatta á félagslega aðstoð, afnámi skatta á húsaleigubætur og samhliða stíga skref í þá átt að draga úr skattlagningu á þann hluta lífeyrisgreiðslna sem má líta á sem fjármagnstekjur.

Þá held ég, ef þetta væri hluti af almennum skattabreytingum, að ég mundi fyrir mitt leyti beita mér fyrir því að þegar á þessu vorþingi yrði ráðist í breytingar á skattaumhverfi fyrirtækja. Það er verið að segja að það þurfi jákvæðar fréttir. Yrðu það ekki jákvæðar fréttir? Ég held það, herra forseti, en þá þýðir ekki að koma hér eins og hæstv. forsrh. og vilja ekki ræða þetta málefnalega.