Efnahagsmál og gengisþróun krónunnar

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 13:48:35 (7296)

2001-05-09 13:48:35# 126. lþ. 118.94 fundur 517#B efnahagsmál og gengisþróun krónunnar# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held ég kjósi að svara hv. þm. Hjálmari Árnasyni ritaraefni við betra tækifæri. En þá skal ekki standa á því.

Broslegt var að heyra tilraunir hæstv. forsrh. hér áðan til að gera út á það að krónan hafi nú heldur braggast á nýjan leik í tvo daga, eftir 6% fall á einum degi í síðustu viku, 12% frá áramótum og yfir 20% á ári eða svo. Öll skilaboð sem nú koma úr íslenska hagkerfinu hvað varðar viðskiptahalla, verðlagsþróun, gengismál og vaxtamál eru skilaboð um óstöðugleika, óvissu og viðsjár.

En hæstv. forsrh. er enn við sama heyrgarðshornið. Hann tekur ekki mark á neinu slíku, skiptir um efnahagsráðgjafa eftir þörfum og setur upp ný og ný sólgleraugu, eins þótt hellirigni.

Það var líka athyglisvert að heyra og hefur verið í umræðum undanfarna daga, að hæstv. forsrh. ber nú allt í einu enga ábyrgð á stjórn efnahagsmála. Maðurinn sem mörg undanfarin ár hefur persónugert góðærið við sjálfan sig, hefur eignað sér það persónulega, er nú laus allra mála og vandinn er Seðlabankans. Þjóðhagsstofnun átti að slá af af því að hún sagði satt um hagstjórnarmistök og birti óhagstæðar spár.

Og nú er alveg greinilega komin í gang markviss undirbúningur undir það að hafa blóraböggulinn tilbúinn ef illa fer. Það er ekki ríkisstjórnin, ekki ráðherra efnahagsmála, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson. Ónei. Það er Seðlabankinn. Þetta er hausverkur hans ef menn skyldu nú vera að keyra út af sporinu.

Og nú er spurningin, herra forseti: Er þannig komið þjóðmálaumræðunni á Íslandi að við í stjórnarandstöðunni og fjölmiðlarnir látum hæstv. forsrh. komast upp með að hafa þetta svona, eigna sér góðærið á meðan það stóð, en bera enga ábyrgð á því þegar harðnar á dalnum, þegar það bankar að dyrum?