Efnahagsmál og gengisþróun krónunnar

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 14:02:02 (7302)

2001-05-09 14:02:02# 126. lþ. 118.94 fundur 517#B efnahagsmál og gengisþróun krónunnar# (umræður utan dagskrár), Flm. JB
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[14:02]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það er alveg ljóst að í því umhverfi peningamála sem er nú mun gengið auðveldlega sveiflast. En ef litið er til síðustu mánaða hefur það verið á niðurleið. Þó það hafi tekið stökk upp og niður er það á niðurleið. Því miður eru ekki neinar sérstakar efnahagslegar forsendur nú sem gefa okkur sérstaklega styrk til þess að það fari upp. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því.

Ég vakti í máli mínu athygli á viðskiptahallanum. Það verður ekkert umflúið að horfa á alvarleika hans.

Ég vakti líka athygli á, herra forseti, þeirri hættu að hér skapist og þróist hagkerfi, efnahagslíf og atvinnulíf sem byggist og nærist á viðskiptahallanum, alveg eins og við bjuggum við atvinnulíf og nærðumst á verðbólgu fyrir nokkrum árum. Það er alvarlegt því það skekkir ekki einungis uppbyggingu atvinnulífs til lengri tíma heldur brenglar allt gildismat okkar og veldur m.a. þeirri miklu byggðaröskun sem við stöndum nú frammi fyrir og höfum upplifað á seinni árum. Það er mjög alvarlegt þegar efnahagslífið er rekið með þeim hætti að það skapar hættu á brenglun á gildismati. Þetta er hið alvarlega til langs tíma.

Herra forseti. Ég vakti líka athygli á mikilvægi sjávarútvegsins fyrir atvinnulíf okkar og ég vakti athygli á því að eitt af meginloforðum ríkisstjórnarflokkanna fyrir síðustu kosningar var einmitt endurskoðun fiskveiðistjórnarstefnunnar og að skapa meiri sátt um varðveislu og nýtingu þessarar auðlindar. Þetta er áfram brýnt en ekkert hefur gerst í þessum málum.

Herra forseti. Sjálfsagt er að líta á hlutina björtum augum og efnahagslíf þjóðarinnar stendur sem betur fer sterkt. En það er engin ástæða til þess samt að vera að veikja það. Okkur ber frekar að styrkja það og slá á betri veg því sem við sjáum að miður er að fara.