Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 15:11:52 (7312)

2001-05-09 15:11:52# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að vitna aðeins í nál. meiri hluta iðnn. sem skýrir afstöðu okkar til þessa frv. Það segir, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið er til komið að frumkvæði Fjórðungssambands Vestfirðinga haustið 1999 þar sem óskað var eftir viðræðum við íslenska ríkið um kaup á meiri hluta sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða. Frumvarpið sjálft er byggt á samkomulagi allra sveitarfélaga á Vestfjörðum. Við það að Orkubúi Vestfjarða er breytt í hlutafélag verður hverju sveitarfélagi heimilt að selja sinn hlut í því og liggur fyrir að íslenska ríkið mun ganga til viðræðna við sveitarfélögin um kaup ríkisins á hlut þeirra í félaginu og gera skuldbindandi kauptilboð. Það verður síðan hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvort það selur hlut sinn eða hefur hann áfram í eigu sinni. Eignarhlutföll sveitarfélaganna eru byggð á íbúatölu hvers sveitarfélags 1. desember 2000 eins og kveðið er á um í lögum.

Ljóst er að skiptar skoðanir eru meðal sveitarfélaga á Vestfjörðum um hvort selja skuli ríkinu hlut hvers þeirra um sig til þess að sporna við fjárhagsvanda einstakra sveitarfélaga. Meiri hlutinn lítur hins vegar svo á að frumvarpið eitt og sér taki einungis til breytts rekstrarforms Orkubús Vestfjarða, en að fjárhagsvandi sveitarfélaganna sé í raun annað mál, og leggur áherslu á að með frumvarpinu sé ekki verið að taka ákvörðun um sölu heldur að skapa aðstæður og lagalegt umhverfi til þess að af sölu geti orðið.``

Þetta kom einnig skýrt fram í máli meiri hlutans í iðnn. þegar málið var þar til umræðu. Fyrst og fremst er verið að gera orkubúið að hlutafélagi og síðan er hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvernig það spilar úr sínu í framhaldinu.