Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 15:25:02 (7318)

2001-05-09 15:25:02# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[15:25]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það almennt stefna ríkisstjórnarinnar að selja í sínum fyrirtækjum og því væri það ekki á skjön við þá stefnu, sannarlega ekki, að ríkið seldi sinn hlut í Orkubúi Vestfjarða. En miðað við það hvernig þetta mál hefur þróast þá sé ég ekki að það leysi þau mál sem frv., verði það að lögum, á að leysa. Ég veit ekki um hvern hv. þm. talar eða hefur í huga þegar hann talar um að hugsanlega geti kaupandi fundist að þessum hlut því að sannleikurinn er sá að mat á fyrirtækinu er hátt og því tel ég ekki miklar líkur á að það mundi ganga upp en ég vil ekki hafna neinu fyrir fram.

Þegar hv. þm. talar um að virkjanir á Vestfjörðum séu inni í þeirri mynd sem nú er til umræðu í tengslum við stóriðjuframkvæmdir og þá sérstaklega í Hvalfirði, þá óttast ég að undirbúningur á Vestfjörðum sé það skammt á veg kominn að hann geti ekki komið til álita nú í sambandi við þær framkvæmdir sem uppi eru áform um við fyrirtækið Norðurál vegna þess að þær byggjast á því að stækkunin geti komið til framkvæmda árið 2004. Og eins og hv. þm. veit liggur fyrir frv. í þinginu sem kveður á um frelsi í vinnslu orku þannig að þar með er það opið fyrir hverjum sem er sem uppfyllir ákveðin skilyrði að fara í virkjunarframkvæmdir.