Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 18:03:56 (7334)

2001-05-09 18:03:56# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, PHB
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[18:03]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég lýsti yfir við 1. umr. að ég væri mjög hlynntur þessu frv. um að breyta Orkubúi Vestfjarða og sameignarfélagi í hlutafélag og ég er það enn þá. Sameignarfyrirkomulagið er úrelt fyrir utan það að eignarhlutirnir breytast eftir íbúafjölda þannig að þegar fækkað í sveitarfélagi, þá minnkaði eignarhluti í þessu ágæta fyrirtæki þegar síst skyldi.

Ég benti jafnframt á að undanþágur þær sem er að finna í 4. gr. eru óþarfar. Það er hægt að koma því þannig fyrir að ekki þurfi að beita þessum undanþágum og síðan benti ég einnig á að undanþágur eru frá skattskyldu sem mér finnst vera óeðlilegt. Mér finnst að orkufyrirtæki geti greitt skatta og skyldur nákvæmlega eins og önnur fyrirtæki og ekki síður fær um það heldur en t.d. gamalt fólk sem á fasteignir.

Herra forseti. Í greinargerð kemur fram að meiningin sé að sveitarfélögin, einhver þeirra, selji hlut sinn í þessu nýja hlutafélagi til að grynnka á skuldum. Í umræðum hefur komið fram að þetta er vegna skuldsetningar sveitarfélaganna vegna bygginga á félagslegum íbúðum.

Við 1. umr. sagði ég, herra forseti, að sveitarfélögin gætu selt félagið hverjum sem væri en þá var mér ekki ljóst að verið væri að tala um að selja fyrirtækið á 4,6 milljarða og ég taldi jafnvel að það væri réttlátt og skynsamlegt verð, eigið fé er 4 milljarðar og það virðist vera gott verð. En í upplýsingum til hv. iðnn., þar sem ég á sæti, kom fram að verðmatið er miklu lægra. Við erum ekki að tala um eðlilega sölu, við erum að tala um styrkveitingu. Þá horfir málið töluvert öðruvísi við, a.m.k. gagnvart mér.

Vandræði sveitarfélaga á Vestfjörðum eru af ýmsum ástæðum. Þau voru sum hver mjög kræf í því að byggja félagslegar íbúðir þegar það var á döfinni til þess að fá atvinnu í sveitarfélögin, þ.e. glannalegar fjárfestingar í félagslegu íbúðarhúsnæði. Önnur hafa lent í því að íbúum hefur fækkað sem þau gátu ekki gert ráð fyrir þegar þau gerðu áætlanir um að byggja félagslegar íbúðir. Svo gerist það þegar fólki er boðið upp á að kaupa íbúð með félagslegum kjörum, með miklum niðurgreiðslum á vöxtum, þ.e. miklu ódýrara húsnæði en gengur og gerist, þá vill einstaklingurinn að sjálfsögðu taka þann kost og alveg sérstaklega þar sem hann þurfti ekki að bera neina ábyrgð á fjárfestingunni vegna endurkaupaákvæða, sem segja að sveitarfélagið verði að kaupa af honum íbúðina ef hann óskaði eftir því. Allt hefur þetta leitt til þess að mikið var byggt af slíku húsnæði og það lenti að sjálfsögðu svo á sveitarfélögunum.

Sú leið sem hér er farin að nota Orkubú Vestfjarða sem dulbúinn styrk til að leysa þennan vanda sveitarfélaganna er afskaplega slæm. Í fyrsta lagi er, eins og bent hefur verið á, sá vandi víðar en bara á Vestfjörðum með þessar félagslegu íbúðir. Mörg sveitarfélög víða um land, á Norðurlandi og Austfjörðum, hafa farið út í félagslegar byggingar án þess að áætlanir hafi staðist um að koma þeim út og vandi þeirra er ekki leystur.

Annar ókostur við þessa leið er sá að Orkubú Vestfjarða í eigu ríkisins verður alltaf metið of hátt þannig að arðsemi þess fyrirtækis verður ætíð mjög lág og það verður mjög erfitt að selja þetta hlutafélag einhvern tíma seinna þannig að það mun verða áfram í eigu ríkisins. Þessi kostur er því mjög slæmur fyrir utan það að þessi styrkur kemur ekki fram sem styrkur gagnvart t.d. íbúum á svæðinu.

Mér finnst, herra forseti, að leysa þurfi vandamál vegna félagslegra íbúða t.d. með því að núvirða allar skuldir miðað við markaðsvexti. Þetta eru lán með 1% vöxtum og þau mætti núvirða miðað við markaðsvexti, 5--6% vexti, og mundu skuldirnar lækka um helming gróft séð, og það mundi hugsanlega laga stöðu fjöldamargra sveitarfélaga og þetta mætti gera almennt þannig að allir sem eiga svona íbúð, hvort sem það eru einstaklingar eða sveitarfélög, fengju lækkun á félagslegu skuldunum og íbúðin losnaði þar með út úr kerfinu og yrði bara eins og hver önnur íbúð. Þetta mætti gera því búið er að gera ráð fyrir því í Íbúðalánasjóði að þessar eignir Íbúðalánasjóðs séu ekki mikils virði. Ef þetta dugar ekki til þá verða menn að sjálfsögðu að grípa á vanda þeirra sveitarfélaga sem þá standa eftir og geta ekki leyst sinn vanda sjálf með því að veita þeim beina styrki, herra forseti, þannig að það komi greinilega fram hvað menn eru að gera. En gæta þarf að því að sum sveitarfélög sýndu ábyrgðartilfinningu og fóru ekki út í svona byggingar á meðan önnur voru ábyrgðarlausari og byggðu og eru að súpa seyðið af því núna. Það er því alltaf spurning um hvort eigi að verðlauna þann sem ekki sýnir fyrirhyggju og ábyrgð. Því miður er allt of mikið gert af því.

En varðandi fyrirtækið Orkubú Vestfjarða þá mundi ég hreinlega leggja til að það yrði gert að hlutafélagi. Og ef sveitarfélögum sýndist svo gætu þau selt það og ég hygg að ef nýir aðilar kæmu þarna inn gæti það orðið sú lyftistöng fyrir Vestfirði sem fyrirtækið á að geta verið. Ég held nefnilega að á Vestfjörðum séu möguleikar sem menn hafa kannski ekki endilega komið auga á sem felast í því að nota það að þarna er mjög mikið fall af vötnum uppi á fjöllunum, 600 metra fall. Það mætti nota þessi vötn sem rafgeyma og flytja orku til og frá Vestfjörðum í stað þess að byggja uppistöðulón um allt landið. Þetta mætti gera og mundi sjálfsagt gerast ef fyrirtækið yrði selt á markaði með þeim einkarétti sem það hefur til virkjunar á Vestfjörðum og þá mundu örugglega einhverjir sniðugir aðilar sjá ýmsa nýja fleti á rekstri þessa fyrirtækis sem að sjálfsögðu gerir það verðmætara. En ég er, herra forseti, mjög efins um að búa til dulbúna styrki með þeim hætti sem hér er lagt til.