Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 16:31:34 (7392)

2001-05-10 16:31:34# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[16:31]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þm. að sala á hlutum í bönkum færi fé út á markaðinn. Það er þveröfugt. Sala ríkissjóðs á hlutum í bönkunum og Landssímanum tekur fé af markaðnum og færir inn í ríkissjóð. Svo er spurning hvað ríkissjóður gerir við það fé, hvort ríkissjóður borgar skuldir eða hvað.

Ég tel að einkavæðing bankanna á sínum tíma hafi verið afar skynsamleg og hafi styrkt bankana sem fyrirtæki. Ég get hins vegar alveg tekið undir að það var spurning um hvort ætti að taka meira út úr Fjárfestingarbanka atvinnulífsins af eigin fé hans en gert var. Ég hefði alveg getað hugsað mér að teknir hefðu verið 3 milljarðar í staðinn fyrir 1 milljarð í meðförum þingsins. Ég taldi líka að það gæti verið skynsamlegt þegar Búnaðarbankinn var gerður að hlutafélagi að þá hefði strax verið veitt heimild til að selja úr hlutafé ríkisins sem þá var þannig að hann þarf ekki að stækka efnahagsreikning sinn eða bjóða út nýtt hlutafé. Það var ekki niðurstaðan. Engu að síður held ég að þessi aðgerð sem slík hafi verið mjög jákvæð og í rauninni heppileg fyrir atvinnulífið líka.

Við heyrðum hv. þm. Steingrím J. Sigfússon ræða um það ástand sem væri þegar bankarnir gætu ekki lánað út fé sem er staðan núna vegna þess að eiginfjárhlutföllin eru komin svo langt niður. Ég tel að það væri afar óheppilegt ef ríkið sem eigandi að þessum fyrirtækjum, ríkisbönkunum, stæði í vegi fyrir því að þeir sem fyrirtæki gætu farið út á markaðinn og náð sér í meira eigið fé. Þess vegna tel ég mjög skynsamlegt að huga að því að í söluferlinu sé líka veitt svigrúm til að auka eigið fé bankanna þannig að þeir geti tekist á við hlutverk sitt og styrkist og geti þjónað betur viðskiptavinum sínum og að íslenska hagkerfið geti stækkað í leiðinni.