Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 18:27:08 (7406)

2001-05-10 18:27:08# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[18:27]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Það eru engin ný tíðindi að hv. þm. Pétur H. Blöndal tali fyrir því að menn stýri fjármálalífi, fjármálastofnunum og sjóðum í krafti eignarhalds á peningum. Það er ekkert nýtt. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum talað fyrir öðrum sjónarmiðum, að fulltrúar mismunandi viðhorfa og hópa í samfélaginu komi að þessum stjórnum. Það er hægt að fara ýmsar leiðir til að tryggja slíka aðkomu. Ein leið sem við höfum tíðkað er að Alþingi kjósi í stjórnir stofnana, þar á meðal var sá háttur hafður á varðandi ríkisbankana til skamms tíma.

Hins vegar langar mig til að upplýsa hv. þm. Pétur H. Blöndal um eitt. Þegar þessi lög um lífeyrissjóðina komu til afgreiðslu á Alþingi greiddi ég atkvæði gegn ákvæðinu um hámarksarðsemi. Ég greiddi atkvæði gegn því. Ég held ég hafi nú verið einn um það. Hver skyldi hafa verið ástæðan fyrir því? Skyldi hún hafa verið sú að ég sé andvígur því að lífeyrissjóðirnir ávaxti sitt pund? Nei. Skyldi ég vera andvígur því að þeir geri það bara nokkuð vel? Nei. Ég hef hins vegar varað við því að þjóðfélagið og fjármálalífið sér í lagi sé skipulagt þannig að þessi krafa ein sé höfð að leiðarljósi. Það getur hent, ef keyrt er á þessa stefnu um of, að efnahagskerfið og þar með þjóðfélagið allt sporðreisist.

Ég held að við séum þegar komin inn á mjög hálar brautir varðandi ávöxtun á fjármagni í samfélagi okkar. Mér finnst það að skoða ávöxtunarkröfuna eina og hafa hámarksarðsemissjónarmiðin ein að leiðarljósi í hæsta máta mjög varasamt. Ég tel að það eigi við um lífeyrissjóði sem aðra sjóði.