Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 21:51:36 (7435)

2001-05-10 21:51:36# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[21:51]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Það stendur ekki á okkur að taka undir framfaramál í efnahagslífinu. En við vörum hins vegar við fljótræði og því sem horfir aftur í tímann eins og það sem hv. þm. hefur verið að tala fyrir að undanförnu. Bankar eru í senn viðskiptastofnanir og þjónustustofnanir. Þeir eru þetta í senn. Að sjálfsögðu eru bankar reknir með það að markmiði að skila hagnaði og lána einvörðungu til þeirra sem eru borgunarmenn fyrir því fé sem þeir taka að láni, að sjálfsögðu. (PHB: Ekkert félagslegt?) ,,Ekkert félagslegt``, segir talsmaður Sjálfstfl. og Framsfl. með mikilli fyrirlitningu. Það er það sem við viljum tryggja. Við viljum tryggja hina félagslegu þætti í þjónustustarfsemi fjármálalífsins, að þeir þjóni landsmönnum öllum, ekki einvörðungu þeim sem búa í þéttbýli heldur einnig hinum sem búa í dreifbýli, að hið sama gerist ekki í fjármálakerfinu og er að gerast í fjarskipta- og póstþjónustukerfinu þar sem verið er að loka pósthúsum víða á landsbyggðinni, segja upp fólki og rýra þjónustuna stórlega vegna þess að arðsemissjónarmiðin ein eru látin ráða för.

Við erum ekki að gera lítið úr arðsemissjónarmiðum, síður en svo. En við viljum líka gera mikið úr þjónustustarfseminni og þjónustusjónarmiðum. Út á það gengur málflutningur okkar og út á það ganga tillögur okkar.