Vinnubrögð við fundarboð

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 10:10:26 (7648)

2001-05-14 10:10:26# 126. lþ. 122.91 fundur 540#B vinnubrögð við fundarboð# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[10:10]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Á tímum eins og þessum, ekki síst þegar við erum með nefndadaga og nefndasyrpu undir, hefur verið greitt fyrir því að hægt sé að dreifa nefndarálitum og breytingartillögum á sérstökum útbýtingarfundum. Þingmenn hafa ekki mætt á slíka fundi vegna þess að samkomulag hefur verið um að þetta væri hagræðingaratriði. Við höfum vitað hvað var að koma fyrir á þessum fundum og ég minni á, herra forseti, að 1. apríl með framlagningu nýrra þingmála er löngu liðinn. Þess vegna held ég því fram, herra forseti, að ekki sé fordæmi fyrir útbýtingu eins og átti sér stað á laugardaginn viku fyrir þinglok.

Það sem hér er að gerast er mjög ámælisvert. Í fyrsta lagi, herra forseti, snýr þetta að samskiptum stjórnarmeirihlutans við stjórnarandstöðuna og opinberar virðingarleysi stjórnarmeirihlutans við stjórnarandstöðuna.

Í öðru lagi, herra forseti, sem er miklu alvarlegra að mínu mati, þá snýst þetta um vinnubrögð forseta Alþingis gagnvart þinginu, gagnvart þingflokksformönnum stjórnarandstöðunnar sérstaklega. Hæstv. forseti þarf að fara að gera upp við sig hvort hann er forseti Alþingis eða hvort hann ætlar að vera forseti stjórnarmeirihlutans. Svo einfalt er það.

Herra forseti. Ég man ekki á þingsetu minni nokkurt sambærilegt dæmi og ætla að halda því fram að svona geri menn ekki.