Vinnubrögð við fundarboð

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 10:17:10 (7653)

2001-05-14 10:17:10# 126. lþ. 122.91 fundur 540#B vinnubrögð við fundarboð# (aths. um störf þingsins), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[10:17]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Ég furða mig á ómaklegum árásum stjórnarandstöðunnar á forseta Alþingis. Hér var haldinn útbýtingarfundur sl. laugardag. Það var algjörlega farið að öllum leikreglum þingsins af hálfu forseta. Hann hefur lýst því hér sjálfur að hann sé ekki milligöngumaður á milli framkvæmdarvaldsins og stjórnarandstöðunnar og það er mjög eðlileg yfirlýsing af hálfu forseta.

Mér fannst þessi útbýtingarfundur á laugardaginn ekki í neinu frábrugðinn venjulegum útbýtingarfundum í öðru en því sem stjórnarandstaðan hefur sérstaklega verið að gagnrýna, þ.e. að þar var útbýtt þingskjali um stórt mál og það er auðvitað ekkert óvanalegt að það sé gert á útbýtingarfundi. Mér fannst þessi uppákoma hér á laugardaginn vera stjórnarandstöðunni til skammar. Mér fannst óviðurkvæmilegt hvernig ráðist var á forseta. Mér fannst óviðurkvæmilegt hvernig hrópað var að þingmönnum sem tóku til máls. Ég held því að menn ættu nú að líta í eigin barm og skoða hvort þar hafi verið í öllu farið að leikreglum.