Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 14:50:26 (7700)

2001-05-14 14:50:26# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[14:50]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í ræðu minni að ég var staddur á flugvelli já, þegar mér var gerð grein fyrir því, ég hringdi hér inn í þingið og fékk upplýsingar um að það yrði útbýtingarfundur en hins vegar vissi ég ekki hvað stóð til að gera, hverju stóð til að dreifa.

Það er náttúrlega þannig að þegar um svona stórt mál er að ræða, mál af þessari stærðargráðu, þá átti auðvitað að kalla saman a.m.k. formenn þingflokkanna og kynna þeim málið fyrir útbýtingarfund og hvað til stæði að gera, og það er það sem menn hafa harðlega gagnrýnt varðandi málið. En ég var sem sagt staddur á flugvellinum og fékk reyndar góðar upplýsingar á flugvellinum vegna þess að þar voru samningamenn bæði útvegsmanna og sjómanna og þaðan hef ég þær upplýsingar eða þá tilfinningu að með því að halda þolinmæðinni í 3--5 daga í viðbót hefðu samningar náðst.

En ég held að við séum öll sammála um það hér að varðandi þennan útbýtingarfund í miklu hasti, þá vissu menn almennt ekki hvað átti að gera á þeim fundi eða hverju átti að dreifa.