Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 14:52:07 (7702)

2001-05-14 14:52:07# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[14:52]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Út af þessu síðasta sem hæstv. forseti sagði þá held ég því hiklaust fram að sá útbýtingarfundur hafi ekki verið með hefðbundnum hætti.

(Forseti (GuðjG): Það er rangt.)

Á þeim fundi var verið að dreifa málgagni sem þingmenn höfðu enga hugmynd um að yrði dreift. Mjög mikilvægt mál var á ferðinni og ég veit ekki betur en að þingið og forsetadæmið hér á þinginu hafi hingað til séð til þess að þingmenn vissu af slíkum málum. Meira að segja á áætlunum, vikuáætlunum er talað um mál, svona helstu mál sem eru til meðferðar á þinginu fram í tímann, og ég man ekki eftir því þennan tíma sem ég hef verið hér að útbýtingarfundir hafi verið notaðir með þeim hætti sem hér er um að ræða, að mjög umdeildu máli hafi verið dreift og ekki hafi verið látið vita af því að það ætti að dreifa því. Á meðan annað kemur ekki skýrt fram og er sannað þá held ég mig við það að þarna hafi verið rangt að verki staðið og reyndar geri ég það, hvort sem menn finna dæmi um þetta eða ekki, vegna þess að það er mjög óeðlilegt að svona mikilvægt mál fái ekki þá bestu kynningu sem mögulegt er.

En auðvitað er ástæðan sú að með mikilli skyndingu voru þingmenn stjórnarflokkanna kallaðir saman til að gera þeim grein fyrir því að þeir ættu að styðja þetta mál. Og eins og venjulega brugðust þeir jákvætt við og hafa lagt það á sig að greiða fyrir því að málið færi til afgreiðslu í þinginu því að þeir bregðast nú yfirleitt ekki þeim boðum sem þeim eru send.

En það er ekki eins og Alþingi Íslendinga standi núna í fyrsta skipti frammi fyrir því að sett séu lög á sjómenn. Þess vegna er ástæða til að velta því svolítið fyrir sér hvernig standi á þessu. Eru þessar stéttir, sjómenn og útvegsmenn, af einhverjum ástæðum ófærar um að leysa sín mál? Eru þetta menn sem kunna ekki til verka, er þetta fólk sem ætti að vera í einhverju öðru en að vera í forsvari fyrir sín samtök? Nei, það er ekki þannig og ég lýsi ekki yfir neinu vantrausti á neinn af þeim sem eiga aðild að þessari deilu, hvorki sjómenn né útvegsmenn.

En ástæður fyrir því að þessir aðilar ná ekki saman í samningum eru hér inni á Alþingi og þær ástæður eru þrjár. Í fyrsta lagi eru þau miklu átök milli útvegsmanna og sjómanna nánast jafngömul kvótakerfinu. Það var ekki fyrr en eftir að eignarhaldið á kvótanum var farið að hafa þau áhrif sem það hefur haft sem misklíðina milli sjómanna og útgerðarmanna var ekki hægt að leysa með þokkalegum hætti. Áður gátu menn leyst sín mál. Það er ástæða til að menn skoði þetta vandlega og ástæða til að gagnrýna fjölmiðla fyrir það þar sem þeir hafa kastað ábyrgðinni bókstaflega á viðsemjendurna, með margs konar hætti í viðtölum við útvegsmenn og sjómenn. Ekki hefur verið dregin athygli að hlut Alþingis í þessu máli sem hefur búið til þetta vandamál með því að gera útgerðarmenn að eigendum kvótans og gera þeim kleift að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum með ýmsum hætti og út af því hefur stór hluti af þessari misklíð verið til margra, margra ára.

En svo eru það verðlagsmálin. Þau eiga líka rætur hér í Alþingi. Hér hafa menn ekki viljað taka á því að skilið verði á milli veiða og vinnslu á þann hátt að atvinnurekstur í sjávarútvegi búi við sams konar umhverfi og gerist annars staðar í þjóðfélaginu. Að menn geti ekki verið að verðleggja hráefnið til sín á einhverju allt öðru verði en markaðurinn segir til um. Á þessu hafa menn ekki viljað taka á hv. Alþingi. Þetta er hin stóra ástæðan fyrir því að sjómenn og útvegsmenn hafa ekki getað náð samningum.

Og þriðja ástæðan er sú að þegar menn fóru að grípa inn í deilurnar hvað eftir annað --- þá varð hún til --- mátti alltaf og má alltaf búast við inngripum frá hv. Alþingi. Það er ekki hægt að semja öðruvísi en að búast alltaf við inngripum frá hv. Alþingi. Þetta eru þær þrjár ástæður sem valda því að ekki er hægt að semja í friði um þessi mál og ekki hefur tekist að leysa þau.

Ég hélt á tímabili að hæstv. ríkisstjórn ætlaði að þreyja þorrann og góuna og láta menn klára eina samninga, en það var nú ekki aldeilis að það yrði. Og þá kem ég aftur að því hvernig lokin ber að og það eru sömu ræturnar sem hægt er að vísa til. Hverjir voru það sem sömdu við útvegsmenn? Það voru forsvarsmenn Vélstjórafélagsins og Helgi Laxdal í broddi fylkingar, sá eini af forustumönnum sjómanna sem hefur opinberlega stutt kvótakerfið allan tímann. Það kann að vera tilviljun en mér finnst svo ekki vera í gegnum tíðina. Og það hefur verið þannig allan tímann að átökin um þetta kerfi hafa kristallast í samningum sjómanna og útvegsmanna og munu auðvitað gera það áfram á meðan menn leysa ekki vandamálin hér á hv. Alþingi.

Ég ætla að benda mönnum á að það er ekkert smávegis sem er á ferðinni. Í skýrslu Þjóðhagsstofnunar frá því 26. sept. í fyrra kemur fram hver munurinn er á heildaraflaverðmæti þorsks, ýsu, ufsa og karfa miðað við að allur fiskur færi á markað. Fram kemur að sá munur var 3,5 milljarðar árið 1995 en hefur verið að vaxa og er orðinn 6,5 milljarðar á árinu 1999. Ekki þarf að undra þó að átök séu á milli útvegsmanna og sjómanna þegar svona hagar til, þegar bara það sem fellur milli skips og bryggju getur verið mismunur upp á þetta. Menn verða auðvitað að hafa það í huga að menn vita svo sem ekki hvert markaðsverð yrði ef allur fiskur færi á markað. En það er a.m.k. klárt að þarna eru á ferðinni gífurlegar upphæðir sem eru í rauninni í andstöðu við alla samninga sjómanna við útvegsmenn þar sem það liggur fyrir alveg skýrt og klárt að það á að fá hæsta verð fyrir afurðirnar og að sjómenn eiga að fá skipti úr hæsta verði. Það hafa útvegsmenn skrifað undir, það liggur fyrir skýrt og klárt. Og skyldi einhvern undra þó að vandræði séu að eiga við þetta?

[15:00]

Svo er hitt málið að ævinlega hafa sumir útgerðarmenn, ekki allir en ýmsir, haft þau ráð síðan kvótakerfið var tekið upp að láta sjómenn með ýmsum ráðum taka þátt í því að fjármagna veiðiheimildir sem þeir kaupa eða leigja til sín. Þessu hefur ekki heldur verið tekið á.

Þess vegna er alveg með ólíkindum að hlusta á hæstv. sjútvrh. og fleiri forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar vera nánast að senda viðsemjendunum sem eiga hlut að þessari deilu hnúturnar. Að þeir hafi ekki getað klárað mál sín, í staðinn fyrir að líta í eigin barm og velta því fyrir sér hvernig væri hægt að leysa og liðka fyrir þessum málum.

Á undanförnum árum hafa menn gripið til ýmissa ráða sem hafa öll verið miðuð við að viðhalda þessu ástandi með einhverjum hætti og hafa þess vegna mistekist. Auðvitað mun aldrei neitt annað duga en að það komi fram markaðsverð á fiski sem verði til með eðlilegum hætti í viðskiptum milli aðila og sjómenn fái skipti út úr því markaðsverði og að veiðiheimildir gangi til útgerða þannig að allt sé þar uppi á borðum.

Auðvitað verða hlutirnir að gerast þannig en hér á hv. Alþingi hefur verið samstaða í þessum hópi um að verja þetta umdeilda og óeðlilega eignafyrirkomulag þar sem útgerðarmenn hafa ígildi eignar í höndum sínum á auðlind þjóðarinnar. Mér er nær að halda, vegna þess að þetta mál hefur ekki mikinn stuðning úti í þjóðfélaginu, að varla muni vera hægt að finna í 63 manna hópi meiri stuðning við þetta fyrirkomulag nema helst á aðalfundum LÍÚ því að menn hafa verið svo trausti rýrðir hvað þetta varðar að þjóðin hefur alltaf verið meira og minna á móti þessu fyrirkomulagi. En á Alþingi hafa menn alltaf haft meiri hluta fyrir því að halda því áfram.

Menn virðast ekki láta sér detta í hug að líta í eigin barm og velta því fyrir sér hvort það sé í takt við eðlilega lýðræðishugsun að reka þetta fyrirkomulag ofan í kokið á þjóðinni ár eftir ár.

Þá kemur að spurningunni: Gátu þessir aðilar leyst sín mál núna? Það er skoðun mín að þeir hefðu getað það ef stjórnvöld hefðu ákveðið það og staðið við að láta málið í friði. Hvers vegna lá mönnum allt í einu svona óskaplega á? Um leið og fyrsti samningurinn er orðinn til þá er byrjað að tala um að setja lög. Áttu menn ekki að fá einhverja daga til að melta það sem hafði gerst í samningunum til að reyna nú að leysa sín mál? Nei, nei, það var strax farið að tala um að nú væri tíminn orðinn stuttur og nú yrðu menn að fara að taka á málum með lagasetningu. Og ekki leið á löngu þangað til lögin birtust.

Ef hæstv. ríkisstjórn hefði staðið í lappirnar og hæstv. ráðherra hefði lýst því yfir að það kæmi ekki til greina, nú lægi fyrir einn samningur og hinir tveir hlytu að geta komið, þá hefðu aðilar kannski sest í alvöru yfir að klára þetta. En það var ekki mikil alvara í málinu. Það var enginn áhugi á að klára málið frá hendi útvegsmanna. Það kom skýrt fram. Þeir hafa engan áhuga á því að fresta þessu verkfalli núna til að freista þess að ná samkomulagi við þá sem eftir eru í deilunni. Það hefur komið hér fram. Þeir hafa engan áhuga á því. Það segir sína sögu um það að þeir vilja bara fá þessa lagasetningu.

Síðan er það með algjörum ólíkindum hvernig menn ætla að standa að þessu á hv. Alþingi. Fjögurra og hálfs árs samningar skulu verða búnir til með gerðardómi. Hv. þingmenn, sem voru að fá úrskurð Kjaradóms í launamálum sínum fyrir nokkrum dögum og fá hann árlega, ætla að setja gerðardóm á sjómenn sem á að duga í fjögur og hálft ár. Það er fínt.

Menn koma jafnvel upp í ræðustól í hv. Alþingi og segja að þessi ferill allur sé að rústa samtök sjómanna en eru samt tilbúnir að standa að því sjálfir, ætla að keyra þetta í gegn.

Þetta er náttúrlega algjörlega óboðlegt. Því miður er ekki hægt að brosa að neinu sem er hér á ferðinni. Ég held að það sé algjört lágmark að hv. þm. hugsi sig um og taki út úr frv. þau fyrirmæli sem eru þarna inni um það hvernig gerðardómurinn eigi að vinna og leyfi honum að vinna í friði ef hann verður til. Sæmast væri mönnum að draga þetta þingmál til baka eins og skot og þingið ætti auðvitað að senda þau skilaboð: Setjist að samningaborði og klárið mál ykkar. En það verður nú ekki gert, það er auðséð. En út úr þessu frv. hljóta menn að taka fyrirmæli af þessu tagi. Það er gjörsamlega fráleitt að hafa þetta svona.

Það getur vel verið að þeir sem eru orðnir vanir að setja lög á kjaradeilu sjómanna séu orðnir þreyttir á því, séu ánægðastir með það að geta haft þetta nógu langt í einu, það er þá sjaldnar sem þarf að berja þetta niður. Er það þannig sem menn hugsa í sölum Alþingis? Ekki er mikil virðing borin fyrir þeim leikreglum sem eru hafðar yfirleitt í lýðræðisríkjum þar sem menn virða samningsrétt og gefa gefa mönnum frið til þess að nýta sér lágmarksmannréttindi sín.

Í sölum Alþingis ættu menn að hafa augun opin fyrir því hvernig Alþingi ber ábyrgð á þessari deilu. En hér er verið að berja sjómenn með lagasetningu sem er meira og minna til komin vegna þess að menn hafa ekki unnið vinnuna sína um borð í þessu skipi.

Þetta eru auðvitað bolabrögð sem eru ólíðandi. Mér finnst að hv. alþm. þyrftu að halda ró sinni svolitla stund og hugsa sig um hvernig væri hægt að komast frá þessari vitleysu.

Það er ekki björt framtíð þessarar atvinnugreinar hvað samskiptin varðar milli þeirra sem vinna í henni eins og hér er orðið ofan á og búið að vera undanfarin ár. Alþingismenn bera auðvitað alfarið ábyrgð á því. Það mál sem hefur verið nefnt fyrr í umræðunni, þ.e. endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða þar sem ætti að taka á og sætta þjóðina með einhverjum hætti við það hvernig þeim málum verði stjórnað í framtíðinni, hlýtur að vera dregið inn í umræðuna vegna þess að uppruni vandans er þar að stórum hluta til. Það er annað af tveimur stærstu málunum sem er á bak við deiluna. En það bólar ekki á því að menn ætli þar að taka á af neinni ábyrgð. Nefndin, þessi svokallaða nefnd sem endurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða, er ekki að gera nokkurn skapaðan hlut. Mér er kunnugt um það. Ég á sæti í þeirri nefnd. Ég hef ekki verið plagaður af því að vinna í þeirri nefnd síðan ég tók þar sæti. (SvH: Segðu okkur eitthvað frá því. Hvernig er það?) Ég get sagt ykkur að frá því að ég tók við sæti af Sighvati Björgvinssyni eftir áramótin í vetur hafa verið haldnir tveir fundir í nefndinni. (SvH: Já.) Tveir fundir, strangir fundir. Þeir voru strax í upphafi eftir að ég tók sæti. En þeir voru svo erfiðir að síðan hafa engir fundir verið haldnir. (Gripið fram í: Það er hraði snigilsins, Sverrir.) Ég held að enginn snigill mundi viðurkenna að þetta væri sá hraði sem hann færi á því þetta er algjör kyrrstaða. (SvH: Hefurðu beðið um fund í nefndinni?) Hæstv. forseti. Ég hef spurt eftir því hvort það eigi að fara að halda fund í nefndinni. Ég hef spurt eftir því hvað hafi verið að gerast í þeim málum sem nefndin á að fást við. Og svörin hafa verið ákaflega óljós og loðin.

En ég vil taka það fram til að sannleikanum sé haldið til haga að ég hef verið boðaður á nokkra fundi í nefndinni en jafnóðum verið afboðaður og boðaður nýr fundur og frestað og afboðað aftur. (SvH: Nú, það er þá dálítið um að vera.) Já, hæstv. forseti, það er töluvert um að vera, virðist vera, en það, sem er um að vera fer ekki fram á fundum í nefndinni.

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með að við skulum standa í þeim sporum sem við stöndum hér í, þar sem við erum að ræða um að setja lög á sjómenn. Ég verð að segja alveg eins og er að í jafnumdeildu máli og þessu, þegar hv. stjórnarþingmenn virðast vera búnir að samþykkja það vegna tillögu hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnarinnar, að troða ofan í kokið á sjómönnum, aðilum Sjómannasambandsins og aðilum Farmanna- og fiskimannasambandsins, samningi sem gerður hefur verið við einn aðila, þ.e. Vélstjórafélagið, sem viðmið við þann samning eða þau kjör sem gerðardómur eigi að ákvarða hinum hluta sjómannastéttanna finnst mér vera fyrir neðan allar hellur. Ég tel að í meðferð þingnefndarinnar og þá í framhaldi af meðferð málsins í hv. Alþingi, hljóti menn að hvarfla frá þessu. Það komi bara ekki annað til greina. Menn eru ekki bara að kalla yfir sig að hafa tekið félagsleg réttindi af sjómannastéttinni eins og hún leggur sig í fjögur og hálft ár heldur eru menn að kalla yfir sig dóma í máli erlendis frá þar sem menn hafa svo sem ýmsa fjöruna sopið áður. En ætla menn aldrei að læra af þessu? Ætlar hv. Alþingi alltaf að vaða fram ef hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar dettur eitthvað í hug og samþykkja sífellt frá þeim tillögur þó að þær séu með þeim hætti sem við sjáum hér sem virðist, a.m.k. við fyrstu sýn og ef sanngirni er höfð í brjósti manna, mjög óeðlilegt að verði látnar ganga yfir sjómenn.

Ég held þess vegna að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem bera einhverja virðingu fyrir Alþingi og starfi sínu þar hljóti að velta þessu máli betur fyrir sér og setja mönnum þá það að ganga þannig frá að það sé a.m.k. hægt fyrir sjómenn að taka við niðurstöðu gerðardómsins með einhverri reisn, að það sé skilið eftir handa þeim einhver mannleg reisn út úr þessu samningaferli.

Eða er það þannig að hæstv. ríkisstjórn og hv. Alþingi vilja bara fá sjómannastéttina gjörsamlega upp á móti Alþingi og upp á móti þeirri niðurstöðu sem kemur út úr þessum gerðardómi? Enginn veit hvað það getur haft í för með sér. Það má lengi brýna deigt járn svo bíti. Það er ekki eins og verið sé að setja í fyrsta skipti lög á sjómenn.

Eina sem virðist hafa bitið á hv. alþingismenn og hv. ríkisstjórn er sú gagnrýni sem kom fram í vetur þegar síðasta tilraunin var gerð hér og lamið í gegn lagafrv. sem gekk út á það að menn töldu upp öll þau tilbrigði að lögum á sjómenn sem hefðu verið sett á undanförnum árum. Þetta virðist hafa haft þau áhrif að nú lengja menn bara í því svo þeir þurfi ekki að gera þetta eins oft. Það eru fjögur og hálft ár núna. Hvers vegna ekki tíu ár? Af hverju ekki að klára þetta bara þannig að menn þurfi ekkert að vera að standa í þessu nema einu sinni þann tíma sem þeir sitja á Alþingi? Hver eru rökin fyrir þessu? Jú, að í vélstjórasamningnum hafi gildistíminn verið fjögur og hálft ár.

[15:15]

Það eru ekki merkileg rök þegar á að grípa til lagasetningar á hv. Alþingi að miða við einhverja samninga sem hafa verið gerðir og samþykktir af 160--170 mönnum í einni atvinnugrein þar sem eru 6.000 manns. (Gripið fram í.) Þetta er auðvitað gjörsamlega ótækt.

Ég ætla svo sem ekki að hafa ræðu mína miklu lengri í þetta skiptið. Mér finnst afar dapurlegt að þurfa að halda svona ræðu hér eins og ég taldi mig knúinn til að gera. En ég held að hv. alþm., sem bera á þessu ábyrgð, hljóti að verða að koma til umræðunnar og útskýra fyrir hv. Alþingi og þjóðinni, sem fylgist auðvitað með þessu, úr því þeir telja sig nú knúna til að standa að þessari lagasetningu, af hverju þeir þurfa að gera þetta svo naglalega sem hér er gert. Hvers vegna eru menn ekki tilbúnir til þess að reyna að gera þetta þannig að allir aðilar geti unað við þetta þannig að þeir haldi sæmilega virðingu sinni?

Þetta skulu nú vera lokaorð mín núna, hæstv. forseti.