Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 15:17:07 (7703)

2001-05-14 15:17:07# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, SvH
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Mér var að berast í hendur bréf sem á erindi hingað og raunar til alþingismanna allra og sér í lagi til alþingismanna Reykjavíkurkjördæmis. Það er áskorun sem LÍÚ hefur tekið að sér að koma á framfæri við okkur. Með leyfi forseta, les ég þetta upp:

,,Áskorun frá almennum félagsfundi í Útvegsmannafélagi Reykjavíkur, sem skorar á Alþingi og þingmenn Reykjavíkur að hvika hvergi frá þeim lögum sem sett hafa verið um kvótasetningu smábáta. Fundurinn hvetur þingmenn Reykjavíkur til að láta ekki undan óbilgjörnum kröfum smábátaeigenda. Annað stríðir gegn réttlætisvitund okkar sem í greininni störfum.``

Robespierre hinn franski, stórtækasti morðingi sögunnar, sem sendi tugþúsundir landsmanna sinna undir fallöxina, var af því kunnur að enda ræður sínar á því að tala um dyggðina. Hérna er það réttlætiskenndin sem er á oddinum. Nema hvað. Þegar smábátaeigendur vilja bjarga lífi sínu og heilla landshlutanna þá neitar réttlætiskennd þessara herra að viðurkenna lífshagsmunabaráttu þeirra.

Ég var ekki viss um að þetta kæmist, herra forseti, inn í þingtíðindin með öðrum hætti en ég læsi þetta upp hér.

Leidd hafa verið að því skýr rök að það lagafrv. eða þau lög sem til stendur að setja hér, muni e.t.v. brjóta í bága við alþjóðalög, sem við erum bundin af. Og jafnvel stjórnarskrána. En menn skulu ekki gera sér háar vonir um að því verði skeytt þótt það brjóti í bága við stjórnarskrána.

Hvaða dæmi höfum við um viðbrögð af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. forsrh. sérstaklega? Þegar þannig hefur staðið á eins og stóð á vegna öryrkjadómsins þá voru sett ný lög. Það var ekki í fyrsta skipti sem sett voru ný lög. Það voru líka sett ný lög vegna kvótadómsins frá 3l. des. 1998. Því verður auðvitað haldið áfram.

Menn hafa rætt um vinnubrögð á hinu háa Alþingi. Ég þóttist sæmilega þingvanur frá fyrri og nýrri tíð en ég kannast ekkert við þau vinnubrögð sem hér voru höfð í frammi. Það hefur aldrei hent mig fyrr að hlusta á það að fundur væri boðaður í Alþingi án þess ég væri látinn um það vita og þurfa að heyra það í útvarpsfréttum.

Auðvitað er það hrein markleysa hvernig að vinnubrögðum er staðið. Verst þykir mér að gamall fóstbróðir minn, Halldór Blöndal, skuli ekki sitja í forsetastóli því ég á erindi við hann. Mér virðist hann nefnilega hafa numið hið sama og Þorgeir Hávarsson nam af móðurknjám, að góður drengur léti aldrei af sér spurjast að hann kysi frið ef ófriður væri í boði. (Gripið fram í.)

Hér er ekki reynt að ná neinu samkomulagi. Hér eru menn ekkert að vinna saman. Hér kjósa menn ófriðinn og þá er að taka þeirri áskorun. Þá er að taka þeirri áskorun. Þeir skeyta ekki einu sinni um að fara með siðferðilegum aðferðum fram í hegðan sinni. Lagabrotin virðast blasa við og það er alveg sjálfsagt og öruggt mál að ákvæði sem að þessu lúta verða elt uppi með lögsókn. Þeim verður ekki hlíft, þessum herrum, sem haga sér þannig.

Þegar menn hafa verið að tala um að samningar kynnu að takast milli sjómanna og viðsemjenda þeirra þá hefur sá sem hér stendur aldrei lagt minnsta trúnað á það. Af hverju ekki? Hverjar eru staðreyndir síðustu 12--14 ára eða svo? Er það rétt hjá mér að þann tíma hafi sjómenn verið samningslausir í meira en sex ár? Hverjum dettur það í lifandi hug að LÍÚ-fósarnir fari að semja nú á þessum hálfa mánuði til 1. júní, sem á að gefa þeim þennan málamyndafrest, vitandi hvaða lög taka gildi þá? Hvers konar barnaskapur er þetta? Hvers vegna er verið að bjóða fullorðnum mönnum upp á þetta? Það er eins og þau séu að umgangast fávita eða óvita.

Ríkisvaldið hefur ævinlega dregið útvegsmenn að landi, ekki nóg með að setja lög um fiskveiðistjórn þar sem örfáum fósum er gefinn lunginn úr íslenskum auðæfum. Heldur hafa þeir ævinlega gripið, hér um bil ævinlega, fram í samninga, frjálsa samninga sjómanna og viðsemjenda þeirra. Það vissu LÍÚ-mennirnir allan tímann að mundi gerast. Þeim datt aldrei í hug að semja. Það var ekki fyrr en fóstbróðir, handbendi og attaníoss formanns Framsfl. var kallaður á vettvang, framsóknarmaður, formaður vélstjóra, til að gera þann málamyndasamning og hrinda málunum þannig af stað.

Þetta gera sér allir sjómenn ljóst og sömdu þannig að nú á að festa þann samning í lög.

Það er þyngra en tárum taki að lesa sig í gegnum þessi ólög sem menn eru hér að fara að setja þar sem í handjárn er verið að setja heila stétt.

Því hefur verið haldið fram, það kann að vera rétt, þótt ég leggi engan trúnað á það, að menn hafi verið á samningabuxum í marsmánuði þegar gripið var inn í deiluna með frestun verkfallsins vegna loðnukvikindanna sem verðlítil voru orðin. Ég lagði aldrei trúnað á það af því sem það blasir við að útvegsmenn mundu aldrei semja með ríkisvaldið á bak við sig sem þeir vissu, þrátt fyrir allar yfirlýsingar, að mundi koma til skjalanna þegar á þyrfti að halda.

Það er svo önnur saga og lengri sem ég ætla ekki að hafa hér uppi, spurningin um í hvaða stöðu útvegsmenn eru til þess að semja yfirleitt. Því hefur verið gaukað að mér að útvegsmenn þyrftu helst á því að halda núna að fá verulegar kjarabætur frá sjómönnum því nú gera þeir upp fyrirtæki sín eftir að hafa starfað undir besta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi með bullandi halla.

Hver eru aðaldeilumálin sem eru uppi svo ég nefni málið um fiskverðsmyndun? Þeir sem gera út skip sín og kaupa aflann sjálfir, þeir gera upp við skipverja sína á nærri helmingi lægra verði en aðrir fá, sem selja á frjálsum markaði eða þessum 60% sem var verið að tala um í sjávarauðlindaþættinum í útvarpinu áðan. Var það ekki framsóknarvélstjórinn sem samdi um að einn fimmti af því skyldi nást nú í samningum hans? Einn fimmti.

Með þessum lögum, ef lög skyldi kalla, þessum ólögum er verið að setja á gerðardóm. Og hvernig er það gert? Það er gert með þeim hætti að setja gerðardómnum fyrir hver niðurstaða hans og úrskurðir skuli vera. Það á að taka mið af þeim dæmalausa framsóknarsamningi sem gerður hefur verið. Hvaða menn taka að sér gerðardómsstörf þar sem til er ætlast af þeim að þeir hafi eingöngu leyfi til að ljósrita samning Helga Laxdals?

Ég hef starfað í gerðardómi og mér er fullkunnugt um hvernig tilurð þeirra verður. Gerðardómur á að kveða upp úrskurð sinn og hann gerir það eftir að aðilar máls hafa flutt sitt mál fyrir honum og gefið skýringar, eftir að hann og gerðardómsmenn hafa kynnt sér ítarlega alla málavexti. Gjarnan er það svo í þriggja manna dómi til að mynda, að aðilar hafa hver sinn fulltrúa og svo oddamann til úrskurða. Hér eru að vísu fleiri sem eiga hlut að máli því nú eru sjómenn alveg klofnir í herðar niður. En að setja gerðardómi þannig fyrir er alveg óþekkt fyrirbrigði fram að þessu.

Hv. síðasti ræðumaður, Jóhann Ársælsson, vék margsinnis að því hvort menn ætluðu virkilega ekki að ná áttum. Hvort menn ætluðu virkilega að setja slík ólög. Að minnsta kosti í orði kveðnu batt hann einhverja von við að þeir mundu ekki gera það. Á hverju byggir hann þá von, að ég ekki segi trú, sem hann getur ekki haft á þessu? Það stendur sannfæring allra sem fylgst hafa með valdhroka þessarar ríkisstjórnar til þess að engu verði í þessu breytt. Að þeir muni binda þá í nærri hálfan áratug, sjómenn.

Við höfum fylgst með því hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur umgengist lög og dóma. Menn hafa ótalmörg dæmi. Þeir hafa gengið á skítugum skónum yfir niðurstöður og dóma Hæstaréttar. Það hafa þeir gert oftar en einu sinni. Þeir hafa sett lög sem gengu þvert á þá dóma. Hvar er ein þjóð stödd ef þannig á þetta að ganga til, ef valdhafarnir skeyta ekki um skömm né heiður, en brjóta sjálfir það lagakerfi og dómstólakerfi sem er undirstaða þess að lýðræði og þingræði fái lifað hér og dafnað?

Auðvitað er hastarlegt til þess að vita að þessir fósar skuli hafa heilu þingflokkana eins og hunda í bandi sem mjamta aldrei kjafti hvernig sem að þeim er vikið. Og þeir eru dregnir eins og fé til slátrunar í hvert eitt skipti.

En mér er spurn og þessa spurningu hef ég aldrei lagt fyrir lengst af minni ævi og síst í sporum löggjafa: Hvar lendir það ef þannig hafast höfðingjarnir að? Skyldu ekki hinir ætla að þeim leyfist að hafa lög að engu? Að ég tali ekki um ólög sem hér eru til umræðu?

Sjómenn og samtök þeirra eiga líf samtakanna sinna að verja og nauðsyn er líka talin brjóta lög.

[15:30]

Það kann að vera of seint fyrir þá að búast um nú til að brjóta þessi ólög á bak aftur. En koma tímar og koma ráð. Ef ég ætti að ráðleggja þeim eitthvað, fulltrúi á löggjafarsamkundunni, mundi ég segja við þá: Búist um rammlega og veljið ykkur daginn að ganga í land allir sem einn þegar verst stendur á fyrir þessum fósum. Menn hafa vikið sér að mér, fleiri en einn og fleiri en tveir, heilu sendinefndirnar hafa gengið á minn fund og spurt: Eigum við ekki að brjóta kvótalögin, eigum við ekki að sækja sjó eins og hugur okkar stendur til, eins og nauðsyn raunar ber til, til þess að við megum bjarga afkomu okkar og byggðarlögum? Ég hef aldrei treyst mér til annars en að svara því með einu móti, að ég gæti ekki annað en mælt gegn því. En nú er nóg komið, nú er alveg nóg komið. Hvers vegna skyldi ég fara að virða einhvers lagasetningu eins og þessa hér? Hvers vegna í ósköpunum skyldi ég gera það? Og allt er þetta, um frest til að gera frjálsa samninga, fram sett af hreinu yfirvarpi og hræsni til að villa um fyrir mönnum. Hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh. sérstaklega kemur helst aldrei til skjalanna eins og hann er klæddur heldur með tómu yfirvarpi, falsi, hræsni og blekkingum eða beinum lygum.

Það er ekkert hægt að kveða of fast að orði um þessa kóna, hæstvirta. Það væri maklegt nú á síðustu dögum þingsins að við lengdum þessa umræðu ærlega með því að bera fram vantraust á hæstv. ríkisstjórn vegna þessa máls og ótal annarra mála eins og að þeim hefur verið unnið. Gegn þessu frv. verða allir heiðarlegir menn að snúast af fullri einurð og fullri hörku og reyna að vekja þjóðina til vitundar um hvað er hér á ferðinni í umgengni við lög og í viðskiptum við löggjafarsamkunduna sjálfa sem á að fara með æðsta valdið. Auðvitað vinnum við engan lokasigur á þessum berserkjum eins og þeir ganga um garða nema með atfylgi kjósandans. Þeir þurfa einu sinni ærlega að hitta sjálfa sig fyrir, þessir herramenn. Ég, satt að segja, treysti íslenskum sjómönnum einna best til þess að sýna þeim í þá heima.