Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 15:33:24 (7704)

2001-05-14 15:33:24# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Mikil sýndarmennska hefur átt sér stað við þessa umræðu. Á sviðið hafa komið engilþvegnir menn, til að mynda hv. þm. Jóhann Ársælsson og háttvirtur, fyrrum virtur, þingmaður Sverrir Hermannsson sem hefur lifað tímana tvenna og talað tungunum tveim á langri tíð á hv. Alþingi. Tunga hv. þm. hefur á þeim áratugum sem hann hefur átt sæti á Alþingi farið marga hringi eins og hver annar vindhani og er ekki til eftirbreytni. Að ráðast á þingmenn og brigsla þeim um beinar lygar og hræsni ætti síst að koma úr munni hv. þm. Sverris Hermannssonar því hann hefur ekki efni á því. Það er sorglegt að hlusta á mætan mann eins og Sverri Hermannsson koma hér með kvöldvökuspjall í máli sem þessu og reyna að slá sig til riddara á kostnað annarra. Það er sorglegt að velja sér þann kostinn sem hv. þm. hefur valið.

Hvað er hv. þm. að ráðast á réttlætiskennd útvegsmanna frekar en annarra manna sem vinna í þessu landi? Ætli hv. þm. hitti ekki sjálfan sig fyrir sem fyrrverandi útvegsmann og stórkapítalista? Rétt væri að huga að speglinum um leið og menn gefa frá sér tístið. Það er óboðlegt, í umræðum um mál eins og hér er til umræðu, að koma fram með málflutning sem hæfir best á flóamarkaði. (ÖJ: Þú hefur verið að hefja málið upp.) Haf þú hljótt um þig, hv. þm., og hafðu einu sinni vit á því að loka á þér þverrifunni. (ÖJ: Mjög málefnalegt.) Það er nefnilega nákvæmlega þannig að menn halda alltaf að þeir komist upp með það í þessum þingsal að gjamma fram í fyrir öðrum endalaust en það má aldrei svara þeim í sömu mynt. Þetta er hluti af þeirri sýndarmennsku sem hér á sér stað, hjá þeim þingmönnum sem svona láta og eru frægir fyrir það. Mánuð eftir mánuð, ár eftir ár hafa þeir stundað slíkt frammítíst. (Gripið fram í: Sumir koma aldrei.)

Það er líka ástæða til að benda á að hv. þingmenn, til að mynda sá sem hér grípur fram í, Ögmundur Jónasson, eru gjarnir á að koma hér í þingið og vera þá búinn að semja við fréttamenn um að hlusta á mál sitt og hverfa síðan út í bæ til að sinna störfum sem hann er að vinna þar. (ÖJ: Þetta er ósatt.) Gott að fá svar.

Það er nú svo að sumt af þessari umræðu fer inn á svið sem því miður má flokka undir gömlu landlausu kommana, sem eru að reyna tala sig inn á nýtt land. Þeir tala um lýðræðið eins og það sé einhver nýr sannleikur. Þeir hafa verið landlausir síðan Sovét hrundi, til að mynda hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem er skemmtilegt að sjá koma inn í salinn. Nú nota ég takta hv. þm. sem hefur gjarnan orð á því þegar menn koma inn í þingsalinn, að nú séu þeir loksins mættir. (SJS: Ég ætla nú ekki að missa af svona veislu.)

Darraðardansinn í þessu máli byrjaði við upphaf þingfundar í fyrradag þegar menn héldu því fram að það væri slík ósvinna og svívirðing að menn skyldu ekki hafa verið látnir vita fyrir fram hvað ætti að segja þeim. Er það einhver nýr taktur að segja verði mönnum fyrir fram það sem maður ætlar að segja þeim? Þetta er einkennilegur málflutningur. Þarna voru þeir loksins í samhljóma takti, formenn Samfylkingarinnar og græningjanna sem hafa þó keppst við það allhastarlega um nokkurt skeið að vera hvor á undan hinum í darraðardansinn. Loksins hljómaði með þeim bræðrunum og það var ánægjulegt og hlýlegt.

Það er neyðarbrauð að ganga til lagasetningar í kjaramálum. Það er engin spurning að það er neyðarbrauð. Í raun get ég tekið undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að það er ömurlegt að þurfa að koma að slíkri lagasetningu. En sjómenn kunna að bregðast við og skilja að það þarf að ganga til verka. (SJS: Að sjómannasið.) --- Ég bíð bara, herra forseti, þar til þeir hafa lokið máli sínu í salnum, þessir taugaveikluðu sem þar sitja. Hlær nú kýrin, sagði bóndinn, og nú hefur hún lokið hlátrinum.

Það er engin spurning að grípa verður til aðgerða þegar komið er fram á ystu nöf. Það er engin spurning að þar sem forsvarsmenn sjómanna og útvegsmanna hafa ekki borið gæfu til þess að ná heildarsamningum þá verður að grípa í taumana. Úti í Evrópu eru kynslóðir sem búið hafa við það ástand að þekkja ekkert annað en atvinnuleysi. Í okkar landi eru til forsvarsmenn verkalýðsfélaga sem búa við þá ógæfu að hafa aldrei náð samningum. Í þeim efnum er engum einum um að kenna. Jafnvel þó að allt að áratugur líði þá er engum einum um að kenna. Málið er uppsafnað og flókið og það verður að segja hverja sögu eins og hún er.

Það eru atriði í kjaramálunum sem hér hefur verið fjallað um og er verið að véla um sem nánast er ekki hægt að ætlast til að menn nái samkomulagi um. Það er alveg sama hvort nefnd eru verðmyndunarmál, mönnunarmál og jafnvel önnur atriði, málið er í algjörri sjálfheldu. Það er ekki nóg með það heldur er málstaður deiluaðila kominn í sjálfheldu, beggja megin borðsins, og það eru meiri hagsmunir en minni að hætta ekki jafnvægi og öryggi samfélags okkar í meiri óvissu en orðið er. Þess vegna má segja á ósköp einföldu sjómannamáli að kannski er verið að sækja þetta mál inn í brimgarðinn og bjarga mönnum frá frekari voða. (SJS: Ert þú slysavarnafélagið?) Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skal ekki hlæja að slíkum málum eða flimtra með þau eins og hann er vanur í sínu tunguflæði. Fiskimiðin við Ísland eru auðlind. Ef hægt væri að virkja tunguflæðið í hv. þm. væri það líka auðlind en það er ekki virkjanlegt vegna þess að það er ekki brúklegt og ekki boðlegt. (ÖJ: Þetta varpar alveg nýju ljósi á málið.)

Við búum við óáran í samningamálum. Við búum líka við pólitískar afturgöngur á Íslandi, gömlu, góðu kommana sem vakna upp og hlæja veikum hlátri músarhugans og er nú ekki mjög hrífandi á að hlýða. (SJS: Það er lítið hjartað í þér.)

[15:45]

Það kann að vel að vera að sá er hér stendur hafi lítið hjarta en hann hefur þó hjarta sem slær, hjarta sem hefur tilfinningu fyrir fólki. Sjómenn hafa alla tíð verið mínir menn. Það vita þeir sem þekkja mig. Enginn skyldi leyfa sér að halda öðru fram. Enginn. (Gripið fram í.) Nú er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að gjamma hér í áttunda sinn og minnir enn einu sinni á það þegar hv. þm. Guðni Ágústsson ...

(Forseti (GÁS): Forseti hefur sýnt talsvert umburðarlyndi hvað varðar frammíköll undir ræðu hv. þm. Einnig hefur forseti sýnt talsvert umburðarlyndi vegna orðfæris ræðumanna. Forseti vill biðja hv. þm. að reyna ekki frekar á þolrif forseta.)

Það er mikið atriði að ganga til þeirra verka sem geta hugsanlega skapað nýjan grundvöll í framtíðinni fyrir samningamál sjómanna. Menn hafa haft á orði fyrr í dag að það væri léttvægt að tala um sex vikna verkfall hjá sjómannastéttinni þegar ekki hefði verið keyrt fastar í verkfalli kennara. Það er bara ekkert líku saman að jafna vegna þess að lýðræði okkar er greitt með starfi sjómanna. Það er greitt með starfi sjómanna og því sem þeir færa á land til að vinna úr verðmæti sem skapar lýðræði fyrir íslenska þjóð. Ef sjómenn okkar geta ekki stundað vinnu sína þá gengur dæmið einfaldlega ekki upp. Þá geta menn bara flutt til Danmerkur eins og til stóð forðum, að flytja alla á heiðarnar þar. Metnaður sumra þingmanna í þessari umræðu nær ekki lengra en að núa salti í sárin því auðvitað er það sár sem blasir við þegar menn sitja uppi með lagasetningu sem þessa. Það segir sig sjálft.

Nokkuð hefur verið klifað á því ákvæði frv. að hafa eigi til hliðsjónar í gerðardómi samninga sem vélstjórar hafa gert við útvegsmenn. Hæstarétti eða gerðardómi er ekki sett fyrir hvernig á að vinna mál. Hann á að hafa ákveðin atriði til viðmiðunar og skoðunar og auk þessa atriðis sem hér hefur verið nefnt hefur hann alla almenna þróun í kjaramálum á sínu blaði. Þessum þætti hefur því verið ofgert að mínu mati. Menn hafa bent á þetta en það er almenn regla að benda ávallt á síðustu kjarasamninga þegar gengið er til slíks verklags.

Mikilvægt er að mjög verði vandað til verksins sem er ætlað að vinna með framlagningu þessa frv. Kannski mun það auðvelda þeim samningamönnum sjómanna sem hafa ekki getað náð samningum árum saman að ganga til verka í eðlilegri samningagerð þar sem hægt er ætlast til að þeir nái samningum. Ég ítreka að mat mitt á stöðunni eins og hún hefur verið er að ekki hafi verið hægt að ætlast til þess. Því er komið sem komið er. Sjómenn skilja það að mínu mati manna best að það þarf að gera sjóklárt og slugsa ekki með tæki og búnað. Þeir skilja það manna best að hlutirnir verða að ganga fyrir sig og með þá vitneskju er kannski eilítið léttara að ganga til þess verks að stuðla að lagasetningu á þennan hátt. Engu að síður er það ekki mjög skemmtilegt.

Ástæða er til að hvetja til að menn skoði almenn viðhorf og almenn sjónarmið. Við erum lítil þjóð í landi sem er frekar dýrt að búa í. Við höfum það betra en flestar þjóðir í heiminum. Ef hlutir fara úrskeiðis hjá okkur þá gerist það hratt. Allir vita að verkfall sjómanna í einhverja mánuði ruggar ekki Reykjavík. Það gerir það ekki, ekki frekar en verkfall sjómanna mundi gera í Noregi í heild. En verkfall sjómanna, verkfall útgerðarmanna, verkfall þeirra sem standa beggja vegna borðsins í fiskveiðunum ruggar landsbyggðinni sérstaklega. Það ruggar fólki sem á í engin hús að venda og býr við aðstæður sem eru mjög afmarkaðar og klárar. Þeir sem verja hag sjómanna og tala máli þeirra hljóta að taka tillit til þess að það er alveg klárt að það er ekki vilji sjómanna að auka óhamingju fólks sem býr við sjávarsíðuna. Það þori ég að fullyrða. Það er ekki vilji sjómanna að standa í slíku.

Sjómenn eru að öllu jöfnu liprari en aðrir til að leysa mál. Þeir búa við harðaðri aðstæður en dekurdýrin sem þekkja ekkert annað orðið en opinbera embættismennsku eins og komið hefur fram í máli sumra hv. þm.

Þegar sorg knýr á dyr af tilbúnum ástæðum á heimilum landsins vegna þess að sjómenn og útgerðarmenn, farmenn, fiskimenn og vélstjórar, sem við köllum venjulega einu nafni sjómannastéttin, hafa ekki borið gæfu til að ná samningum sem eru grundvöllur þess að fólk geti unnið vinnu sína, lifað lífi sínu, átt til hnífs og skeiðar, klætt börn sín og hegðað sér nokkurn veginn eðlilega, þá er nauðsynlegt að grípa í taumana. Um það snýst þessi lagasetning, ekkert annað.

Í upphafsræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar í dag var aðalvandinn sá að ekki væri komið rétt fram við stjórnarandstöðuna. Þetta mál snýst um að það eru ekki rétt vinnubrögð gagnvart stjórnarandstöðunni, sagði hv. þm. Stjórnarandstaðan og stjórnarsinnar eru smáatriði í þessu dæmi. Þetta snýst um íslenskt þjóðfélag, snýst um að hjólin í þjóðfélagi okkar geti snúist, við getum unnið úr verðmætum okkar og aflað þeirra. Þar eru sjómenn og sjómannastéttin lykilatriði. Það er kannski þess vegna sem við krefjumst meira af þeim en öðrum. En það eru lykilatriðin og síðan verður að vinna úr aflanum eins vel og hægt er út frá málatilbúnaðinum í frv. sem er hér til umræðu.