Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 15:55:27 (7705)

2001-05-14 15:55:27# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[15:55]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég kom til þings átti ég von á að stjórnarliðar væru nokkuð beygðir yfir því sem fram undan var. En þeir hafa í samtölum verið sem bergnumdir í sannfæringu sinni við að réttlæta lagasetninguna sem hér á að fara fram. Þingmanninum sem var að ljúka máli sínu var nokkuð niðri fyrir. Ég er að velta fyrir mér hvernig eigi að túlka það. Ég hélt eitt augnablik, sem ég átti von á, að hann væri beygður yfir því sem ætti að fara að gera en ræða hans bar ekki vitni um það.

Herra forseti. Þetta mál, allt frá laugardeginum og í allri framvindu sinni, snýst um þrennt: Lýðræði, virðingu og valdbeitingu. Þingmaðurinn nefndi að lýðræði hefði verið búið til af sjómönnum. Þeim er þá illa launað, bæði með skorti á virðingu og þeirri valdbeitingu sem hér fer fram. Hér hefur verið rætt um félagafrelsi og frjálsan rétt til að semja. Það er ekkert gert með það. Ég bendi á virðingarleysi gagnvart starfsstétt og rétti hennar til að semja, virðingu fyrir alþingismönnum, vinnufélögum á hv. Alþingi sem þingmenn gera heldur ekkert við, og valdbeitinguna.

Það er umhugsunarefni að LÍÚ skákar í skjóli valdsins í samskiptum sínum við sjómenn. Það á eftir að koma betur fram í ræðum þingmanna. Ég spyr hv. þm. hvernig honum fyndist að reyna að semja ávallt með lagasetningu yfir höfði sér. Finnst honum í lagi að binda það í lög til margra ára sem er hér sett fram í 3. gr. og tenginguna við samning vélstjóra sem eru í allt annarri stöðu en hásetar á bátunum?