Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 16:04:36 (7710)

2001-05-14 16:04:36# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[16:04]

Árni Johnsen (andsvar):

Herra forseti. Ég bý við þær takmarkanir að ég veit ekki allt eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem veit alltaf allt hvenær sem er og hvar sem er. Ég er kannski einn af þessum venjulegu Íslendingum sem hef almennt brjóstvit og út frá því tala ég. Meira hef ég ekki upp á að bjóða í þeim efnum og ég vona að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon virði mér það til vorkunnar að vera eins og venjulegt fólk.

Sjómenn vita vel að þegar í óefni er komið þá þarf að grípa í taumana. Í þessu tilviki er það íslenska ríkisstjórnin sem er karlinn í brúnni sem þarf að grípa í taumana. Íslenska ríkisstjórnin þarf að grípa í taumana vegna þess að komið er í óefni og tíminn er útrunninn.