Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 10:02:48 (7773)

2001-05-15 10:02:48# 126. lþ. 123.91 fundur 545#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[10:02]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil í upphafi fundar gera athugasemdir við aðkomu og meðferð þess máls sem hér er fyrst á dagskránni, frv. sem var ætlað að stöðva verkfall sjómanna. Um leið vek ég athygli á því, herra forseti, hversu löggjafarundirbúningi er í raun ábótavant á hinu háa Alþingi.

Hér gerðist það í gær að frv. var lagt fyrir Alþingi um að stöðva verkfall sjómanna og um tilteknar hliðaraðgerðir samfara því. Sú sem hér stendur og fleiri vöktu máls á því við 1. umr. málsins að öll líkindi væru á því að frv., a.m.k. örugglega 3. gr. frv., bryti í bága við stjórnarskrá og alþjóðlega samninga auk samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um félagafrelsi.

Hæstv. ráðherrar félagsmála og sjávarútvegsmála viðurkenna það í raun við 1. umr. málsins að svo geti verið og lýsa því yfir að þeir vilji beita sér fyrir breytingum á 3. gr. frv. Hæstv. félmrh. orðaði það svo að hann teldi mikilvægt að fram færi ítarleg og fagleg skoðun á þessum þætti málsins.

Við meðferð málsins í hv. sjútvn. gerist það hins vegar að fulltrúi frá félmrn. kemur og fer yfir málið. En það verður að segjast eins og er, herra forseti, að ekki fór fram sú ítarlega faglega úttekt sem menn höfðu rætt um við 1. umr. málsins. Í raun og veru varð fátt um svör við þessa yfirferð.

Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar í sjútvn. fóru fram á að kallaður yrði fyrir fundinn fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands eða öðrum sem hefði ítarlega þekkingu á þessum samþykktum og túlkun þeirra. En því var hafnað, a.m.k. á þessu stigi.

Herra forseti. Það er ekki sæmandi hv. Alþingi að frv. sé í þessum búningi þegar þau koma til meðferðar á hinu háa Alþingi. Ég vil gera við þetta alvarlegar athugasemdir og hvetja um leið hæstv. forseta til þess að beita sér fyrir því að löggjafarundirbúningur sé vandaðri en þetta ber vitni um, herra forseti.