Beiðni um fundarhlé

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 11:47:17 (7816)

2001-05-15 11:47:17# 126. lþ. 123.94 fundur 548#B beiðni um fundarhlé# (um fundarstjórn), HBl
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[11:47]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil segja af þessu tilefni að mér kemur mjög mikið á óvart að ekki skuli vera hægt að halda stuttan fund með þingflokksformönnum og forseta Alþingis án þess að nauðsynlegt sé að gera hlé á fundum Alþingis. Það hefur verið altítt að slíkt hefur verið gert og ekki fundið að. Engin slík vandamál hafa verið uppi í fundarhaldinu í dag að ástæða sé til að krefjast þess að hlé sé gert á fundinum. Ég vildi benda hv. stjórnarandstæðingum á að ég varð við því greiðlega, það var sjálfsagt mál, að fresta um sinn umræðunni um fyrsta dagskrármálið. Ég vil biðja hv. þingmenn að sýna samstarfsvilja með því að við hittumst nú og eðlileg þingstörf geti haldið áfram á meðan eins og menn hafa gert í þessum sal og þessu húsi ef menn vilja vinna saman samstarfsfúsir og af einlægni.