Húsaleigubætur

Þriðjudaginn 15. maí 2001, kl. 18:34:50 (7852)

2001-05-15 18:34:50# 126. lþ. 123.19 fundur 625. mál: #A húsaleigubætur# (réttur til bóta o.fl.) frv. 52/2001, PHB
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 126. lþ.

[18:34]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. með fyrirvara og það eru einkum þrjú atriði sem ég geri athugasemd við. Það er í fyrsta lagi sú forsjárhyggja sem birtist í 3. gr. sem felst í því að menn fái ekki húsaleigubætur nema þeir leigi mjög myndarlega íbúð, þ.e. með eldhúsi og baði. Það nægir ekki að menn búi í herbergi til að spara sér fyrir íbúð heldur verða þeir að leigja heila íbúð, annars fá þeir ekki styrkinn. Þetta er ákveðin forsjárhyggja og stýring sem ég er á móti.

Annað atriði sem ég er á móti, herra forseti, er það að allar reglur um upphæð og uppbyggingu húsaleigubóta eru í höndum hæstv. félmrh. sem er ágætis maður en fær allt of mikið vald. Það er ekki orð í lögunum um hvernig húsaleigubætur eiga að vera uppbyggðar.

Og sem afleiðingu af því er þriðja atriðið sem ég er á móti. Það að einstaklingur sem framfærir bara sjálfan sig og er með 200 þús. kr. á mánuði í tekjur fær samkvæmt þeim reglum sem félmrn. hefur byggt upp 6 þús. kr. á mánuði í húsaleigubætur. Ég tel ekki þörf á að styrkja mann sem er með 200 þús. kr. á mánuði til að sjá bara um sjálfan sig.